„Blöskraði“ hækkanir birgja á matvöru“

mbl.is/Hjörtur

Ein forsenda nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er að fyrirtækin haldi aftur af verðhækkunum í þágu stöðugleika.

Síðan hafa ýmsir aðilar, hið opinbera og einkaaðilar, hins vegar hækkað verð á vörum og þjónustu. Verð á stakri ferð fyrir fullorðna hjá sundlaugunum í Reykjavík var hækkað úr 550 í 600 krónur um áramótin en gjaldskráin er að öðru leyti óbreytt. Þá hækkuðu komugjöld á heilsugæslustöðvar um 15-20% hinn 1. janúar síðastliðinn. Gjöld vegna vitjana lækna hækkuðu sömuleiðis og kostar vitjun læknis á dagvinnutíma nú 3.400 en áður 2.800 krónur.

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir sér hafa „blöskrað“ að verslanir Haga skyldu fá fjölda tilkynninga um hækkanir frá birgjum, með hliðsjón af þeirri áherslu sem sé lögð á sátt um stöðugleika í nýgerðum kjarasamningum. Því telji hann rétt að gera grein fyrir þessum hækkunum.

Nú síðast hafi Kaupfélag Skagfirðinga tilkynnt 5% hækkun á verði á nautakjöti 1. febrúar nk., auk þess sem Nói Síríus, Freyja, Lýsi og Emmess ís hafi boðað hækkanir. Þá muni verð á brúneggjum hækka og verð á Hámarki frá Vífilfelli.

Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir hækkunum verða mótmælt.

„Birgjar hafa sent okkur tilkynningar um að það verði hækkanir. Við ætlum hins vegar að berjast gegn hækkunum. Við sendum okkar birgjum bréf þar sem við mótmælum öllum hækkunum og biðjum þá um að endurskoða sínar ákvarðanir,“ segir Kristinn.

Helgi Vilhjálmsson, eigandi sælgætisgerðarinnar Góu sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann kallar eftir samstöðu allra matvöruframleiðenda og kaupmanna í stríðinu gegn verðbólgu á nýju ári. „Með þeim hætti vill hann safna liði og svara því ákafa kalli sem heyrist nú um stundir í öllu samfélaginu; að atvinnurekendur, verkalýðsfélög og allur almenningur verði að standa saman til að viðhalda kaupmætti og stöðugleika í efnahagslífi landsmanna. „Ég kalla eftir kraftmiklum manni úr röðum atvinnurekenda til að fylkja okkur saman – og nú má enginn víkja af hólmi,“ segir Helgi í fréttatilkynningu. Þar kemur fram að Góa hafi ekki hækkað verð frá árinu 2009 og stefnt sé að því að hækka ekki verð nú.

Miðstjórn ASÍ samþykkti í gær ályktun þar sem þess er krafist að verðhækkanir opinberra aðila og verslunar- og þjónustufyrirtækja verði dregnar til baka. Þá sendu Samtök atvinnulífsins frá sér tilkynningu þar sem sagði að hækkanir innlendra framleiðenda væru áhyggjuefni. Loks gagnrýndi Starfsgreinasambandið hækkanir opinberra aðila harðlega í orðsendingu.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir fulltrúa Reykjavíkurborgar hafa viðurkennt mistök við hækkanir á bílastæðagjöldum sem ætla megi að verði leiðrétt.

„Tiltekin fyrirtæki hafa tilkynnt smásölunni að þau ætli að hækka verð á vörum. Við höfum skorað á smásöluverslunina að upplýsa okkur um þetta. Við munum fylgjast með verðlagi í verslununum. Þessi fyrirtæki eru að skara eld að sinni köku með þessum hækkunum. Það er hvorki í takt við yfirlýsingar forystumanna atvinnulífsins né markmið samninganna. Þess vegna er þetta ögrun við launafólk og ekki síður það markmið að ná tökum á verðbólgu. Við munum fylgja þessu eftir og ef fyrirtækin falla ekki frá þessu munum við birta nöfn þeirra. Þá verða neytendur að meta hvort þeir vilja eiga viðskipti við þessi fyrirtæki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert