„Það er ekki hægt að láta píanóið eiga sig“

Philip Glass
Philip Glass mbl.is

Philip Glass er eitt áhrifamesta tónskáld síðustu hálfrar aldar. Þau Glass, Víkingur Heiðar og Maki Namekawa munu flytja hinar tuttugu Etýður hans í Hörpu 28. janúar og píanóið stendur hinu fjölhæfa tónskáldi nærri. „Ef þú skilur fugl, hund eða plöntu eftir heima hjá þér án þess að sinna þeim þá drepast þau hreinlega. Þannig er það líka með píanóleik,“ segir hann.

Ég hlakka mikið til að heimsækja fallega landið ykkar, það hefur mikið verið dásamað í mín eyru,“ segir bandaríska tónskáldið og píanóleikarinn Philip Glass. Hann kemur fram í Eldborgarsal Hörpu þriðjudagskvöldið 28. janúar ásamt píanóleikurunum Maki Namekawa frá Japan og Víkingi Heiðari Ólafssyni. Þau leika allar tuttugu Etýðurnareftir Glass, píanóverk sem hann hóf að semja fyrir rúmum tveimur áratugum og lauk við fyrir rúmu ári.

Glass er eitt merkasta tónskáld síðustu hálfrar aldar. Hann er nú orðinn 76 ára gamall og slær ekkert af; á síðasta áratug hefur hann sent frá sér nokkrar óperur, sinfóníur, konserta og kammermúsík, auk þess að semja tónlist við margar kvikmyndir. Þá kemur hann reglulega fram sem píanóleikari.

Glass er einn kunnasti forvígismaður þeirrar stefnu sem oft er kölluð mínimalismi í tónlist, þótt hann hafi viljað halda sér fjarri slíkum skilgreiningum, tali frekar um sig sem „höfund tónlistar með endurtekinni hrynjandi“ og að hann sé í raun klassískt tónskáld. Og hingað kemur hann til að leika fyrir tónleikagesti á slaghörpuna.

„Það tók mig miklu mun lengri tíma að semja þessi verk, Etýðurnar, en ég ætlaði,“ segir Glass þegar slegið er á þráðinn til hans í New York. „Ég byrjaði að semja þær fyrir tuttugu árum, 1991. Þá var ég á sextugsaldri og hugsaði mér að ljúka þeim á nokkrum árum svo ég gæti í kjölfarið lært verkin og flutt þau sjálfur. En sú varð ekki raunin. Ég náði að semja sextán en svo hægði ég á mér, festist í að semja óperur og sinfóníur, en ég lauk loks við þær í desember 2012.“

Glass þagnar og bætir svo við að það sé í sjálfu sér áhugavert hvað verkið tók hann langan tíma, nú gefi etýðurnar nefnilega góða mynd af því hvernig tónsmíðar hans hafi þróast á þessu árabili. „Og fyrir vikið hafa þær orðið mun mikilvægari en ég hugði upphaflega.

En þessi verk hafa einnig skapað ný vandamál því nú þarf ég að læra alla þessa tónlist,“ segir hann og hlær. „Ég kann þegar tólf eða þrettán af þeim en sex eða sjö kann ég ekki. Það tekur tíma að læra ný verk og þar sem ég er upptekin við að semja önnur ný, þá fékk ég þá hugmynd að bjóða öðrum píanóleikurum að taka þátt í flutningnum með mér. Maki Namekawa er afskaplega góður píanóleikari sem hefur leikið önnur verk eftir mig, hún kemur fram á öllum tónleikunum með mér, en síðan bjóðum við einum heimamanni að koma fram með okkur á hverjum stað. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar: Ég fæ að kynnast nýjum hljóðfæraleikurum, fleiri munu læra tónlistina mína og svo byggjum við smám saman upp net spilara sem tengjast.“

Þessi háttur var hafður á á tónlistarhátíðinni í Perth í Ástralíu fyrir tæpu ári, þegar síðustu fjórar etýðurnar voru frumfluttar í tilefni af 75 ára afmæli Glass.

„Það er afar ánægjulegt hvað píanóleikararnir sem hafa verið fundnir fyrir mig eru góðir, því það er ekki auðvelt að flytja þessa tónlist. En nú vilja góðir hljóðfæraleikarar takast á við verkin mín, sú var ekki raunin fyrir um þremur áratugum þegar enginn vildi snerta á þeim. Nú er fólk farið að þekkja þau áður en það byrjar að leika og sífellt fleiri bætast í þann hóp...

En heyrðu,“ segir Glass skyndilega. „Ég á ungan vin, tónskáld, sem er mikið á Íslandi. Nico Muhly heitir hann og hefur árum saman dásamað landið ykkar í mín eyru. Þetta verður mín fyrsta heimsókn til Íslands og loksins gat ég sagt honum að ég væri á leið til uppáhaldslandsins hans.“

Samdi þær fyrstu til að æfa sig

Tónlistarfræðingar segja að hver etýða Glass hafi sitt þema en saman myndi þær áhrifaríka heild. Hugsaði hann þær þannig?

Glass hikar. „Í rauninni veit ég ekkert hvað ég var að hugsa!“ segir hann síðan og hlær. „En í byrjun var ég að hugsa um að bæta tækni mína í píanóleik. Verkin sem píanóleikarar fá í hendur að æfa sig á eru ekki alltaf örvandi eða góð tónlist, kannski góð fyrir fingurna en ekki endilega fyrir heilann eða hjartað. Ég var að spila mikið á þeim tíma og ákvað, þar sem ég þyrfti að halda mér í formi í píanóleiknum, að skrifa verk sem höfðuðu til mín sjálfs. Sú var hugsunin að baki fyrstu fimm eða sex og það virkaði. Á þessum tíma, á tíunda áratugnum, lék ég þær fyrstu opinberlega og get fullyrt að mér fór fram. En upp úr því fór ég að hugsa um þessi verk á annan hátt, fór að sjá þetta sem röð eða hring sem öðlaðist eigið líf og form. Ég vissi engu að síður ekki hvert það myndi leiða mig. Um 2002 náði ég að komast upp í etýðu númer 16 en þar hætti ég. Ég var upptekinn við óperur og sinfóníur en samt hugsaði ég alltaf um að ljúka þessum píanóverkum. Að lokum fékk ég pöntun frá tónlistarhátíð í Perth í Ástralíu, um að ljúka við seríuna.

Þegar ég reyndi að byrja á þeirri 17. fannst mér að ég ætti að muna eitthvað sem tengdist henni en gat ekki munað hvað. Þetta sótti svo á mig að ég fór að leita í nótunum mínum, fannst að ég ætti jafnvel stef að nota, og rakst þá á verk sem ég hafði samið við ljóð eftir Allen Ginsberg. Á horninu á því stóð talan 17 og nótur með. Það var stórmerkilegt. Ég hafði leikið þetta verk við ljóðið árum saman en aldrei tekið eftir þessu í honrinu. En nú settist ég niður og lék stefið, þurfti að breyta því svolítið, en þarna var það! Svo samdi ég verk númer 18 og 19 og þurfti þá að takast á við það hvernig ég ætti að ljúka seríunni. Skyndilega kom það 20. þó til mín, hratt og var að mörgu leyti ólíkt hinum. Þau eru öll sex eða sjö mínútur, það síðasta hins vegar tíu eða ellefu; það myndar ákveðna heild en hverfur svo bara! Ég get ekki lýst því betur, þú verður bara að heyra það... Þá segirðu bara: Já, einmitt, þetta er þá endirinn...“ Hann hlær.

Eftir að nýju etýðurnar voru frumfluttar hefur Glass leikið þær allar tuttugu tvisvar sinnum með tveimur öðrum píanóleikurum. Í Mexíkó og Lundúnum. „Þessi verk eru að byrja að taka meiri tíma á tónleikadagskránni hjá mér og verða fyrirferðarmikil á henni næstu tvö árin,“ segir hann. „Það verður talsverður viðburður þegar þau verða frumflutt hér í New York í desember, þá verða tvennir tónleikar, tíu etýður hvort kvöld, og átta píanóleikarar leika með mér. Það verður eiginlega lítil píanóhátíð!

Þá er ég að verða búinn að fara yfir nóturnar og þær fara að koma út. Auðvitað munu menn leika verkin á sinn hátt, og engir tveir eins, en fyrsta útgáfan verður engu að síður eins og ég leik þau sjálfur. Hvað gerist með þau eftir það kemur mér ekki við...“

Ný tónlist alla daga

Glass segist alltaf njóta þess að leika á píanóið. Það var þó ekki fyrsta hljóðfærið hans. „Nei, sem strákur lærði ég á flautu og fór frekar seint að spila á píanó. Foreldrar mínir höfðu aðeins ráð á að láta hvert barn læra á eitt hljóðfæri og bróðir minn lærði á píanó. Kennarinn kom heim að segja honum til og ég sat í herberginu mínu á meðan, en þegar kennarinn var farinn hljóp ég að píanóinu og lék æfingarnar sem hann setti bróður mínum fyrir. Þá elti bróðir minn mig um stofuna, því honum fannst ég vera að stela tónlistinni frá honum, sem var líklega rétt. En hann varð ekki tónlistarmaður heldur ég. Ég byrjaði því að leika aðeins á píanó á þessum tíma en fimmtán ára var ég farinn að leika af alvöru á píanóið.

Ég hélt áfram að leika á flautu þar til ég varð þrítugur en þá hófst tónleikaferill minn á píanóið. Síðan hef ég haldið mig við það.“

Foreldrar Glass voru gyðingar, innflytjendur frá Litháen, og þau studdu soninn við tónlistarnámið en jafnframt lærði hann heimspeki og stærðfræði í háskóla. Síðan lagði hann stund á tónlistarnám við Juilliard-tónlistarskólann í New York og tók að vekja athygli og hreppa virt verðlaun fyrir tónsmíðar. Hann hefur samið allrahanda verk en margir halda upp á píanóverkin hans. Til dæmis Metamorphosis-röðina og Mad Rush. Nálgast hann þau með öðrum hætti en viðameiri hljómsveitarverk?

„Vissulega eru verkin ólík, samin fyrir píanóið eitt eða hljómsveit, en mörg tónskáld hafa tekið píanóið mjög alvarlega. Debussy og Beethoven eru góð dæmi um það. Þeir sömdu mikið af hljómsveitartónlist, allrahanda verk, og ég vil ekki bera mig saman við þá að öðru leyti en því að ég deili þessu vinnulagi með þeim. Píanóið varð mikilvægt fyrir mig og píanótónlist þeirra Beethoven og Debussy – og ég dái þá báða – er með því besta sem þeir sömdu. Það er auðséð hvers vegna; ef þú ert með píanó í húsinu geturðu sest niður hvenær sem er og leikið á það! Sjálfur byrja ég daginn á því að leika þá tónlist sem ég er að vinna að. Ég reyni líka alltaf að finna tíma seinnipart dags til að æfa mig, en ef ég finn hann ekki þá hef ég þó alltaf leikið tónlist einu sinni þann daginn á píanóið. Suma daga á ég erfitt með að finna tíma til að koma öllu í verk sem mér finnst ég þurfa að gera, en það er ekki hægt að láta píanóið eiga sig. Ef þú skilur fugl, hund eða plöntu eftir heima hjá þér án þess að sinna þeim þá drepast þau hreinlega. Þannig er það líka með píanóleik! Ég hafði ekki hæfileika í ómældum mæli, eins og sumir, allt sem ég get hef ég þurft að berja inn í mig með hörku,“ segir hann og hlær. „Ég hef þurft að læra með mikilli og erfiðri vinnu. Sem hefur sína kosti.“

Samstarf við marga og ólíka listamenn hefur einkennt feril Glass. Hann segist njóta þess að vinna með skapandi fólki. Kvöldið áður en við ræðum saman kom hann fram með listamönnum sem eru um fjörutíu árum yngri, á styrktartónleikum fyrir fórnarlömb hamfara á Filippseyjum.

„Mér fannst afar gaman að koma fram með þeim. Svo lengi sem ég get haldið áfram að spila finn ég að ég nýt þess að tengjast og vinna með fólki af yngri kynslóðum. Það er gott fyrir þau og gott fyrir mig!“

Þrátt fyrir að Glass sé kominn hátt á áttræðisaldur er hann enn fullur starfsorku.

„Skrifborðin mín og píanóin eru undirlögð af nýrri tónlist alla daga,“ segir hann. „Nú er ég að ljúka við verk fyrir afríska söngkonu, Angelique Kidjo frá Benín. Þá þarf ég að ljúka við konsert fyrir danshóp í Hollandi. Ég hlakka til að takast á við það. Önnur verkefni bíða mín. En svona er þetta, ef fólk heldur áfram að vinna og nýtur þess, eins og ég, þá verður venjulega eitthvað úr verki.“

– Sköpunarkrafturinn er svona mikill?

„Þetta er það sem það er. Vinnan heldur manni á hreyfingu, ég get fullyrt það.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert