Vörubílstjórar á slysadeild

mbl.is/Heiddi

Flutningabíll fór út af veginum á Vesturlandsvegi við Grundarhverfi á Kjalarnesi á sjöunda tímanum í kvöld. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, var fluttur á slysadeild. Gat kom á tank bifreiðinnar með þeim afleiðingum að hráolía lak á veginn.

Slökkviliðsmenn fóru á vettvang og tókst þeim að stöðva lekann. Hreinsunarstarfi lauk upp úr klukkan 19 í kvöld. Ekki liggur fyrir hversu mikið magn lak á veginn en að sögn varðstjóra hjá SHS tókst mönnum að fyrirbyggja mengunarslys. Tilkynning barst kl. 18.41.

Annað slys varð í Mosfellsbæ

Önnur vörubifreið endaði utan vegar í dag. Hún fór út af veginum við Skeiðholt við Varmárskóla í Mosfellsbæ á þriðja tímanum í dag með þeim afleiðingum að hún valt. Ökumaðurinn var fastur í bifreiðinni og þurftu sjúkraflutningamenn að fjarlægja framrúðu bílsins til að ná manninum. 

Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Ekki er vitað um líðan mannsins. Tilkynning barst um kl. 14.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert