Hyggst sækja bætur til MAST

Regluverk Evrópusambandsins sem innleitt er hér á landi í gegnum EES-samninginn stendur í vegi fyrir viðskiptum við Bandaríki og tilgangurinn með því eftirliti sem það kveður á um er fyrst og fremst að tryggja hagsmuni framleiðenda innan sambandsins og þar með meðal annars beina viðskiptum hér á landi til ríkja þess.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Jóns Geralds Sullenberger, eiganda verslunarinnar Kosts, á morgunverðarfundi Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins sem fram fór á Hótel Natura í Reykjavík í morgun. Ræddi Jón um reynslu sína í þeim efnum en hann flytur vörur sínar að mestu leyti inn frá Bandaríkjunum.

„Það sem helst stendur í vegi fyrir innflutningi frá Bandaríkjunum er reglugerðafargan Evrópusambandsins. Þau höft sem þeir hafa sett okkur í og þær reglugerðir sem við eigum að fara eftir, það er varla hægt að fylgja þeim eftir. Kostnaðurinn er gríðarlegur, markaðurinn á Íslandi er ekki nema um 320 þúsund manns, og við höfum hvorki efni á honum né ættum við að framfylgja þeim reglugerðum sem koma þaðan ef við ætlum að hugsa um hag íslenskra neytenda,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Jón Gerald fór hörðum orðum um afskipti Matvælastofnunar (MAST) af fyrirtæki hans á fundinum og sagði þá hafa valdið rekstri þess miklum kostnaði og gjarnan að tilefnislausu. Sagðist hann af þeim sökum vera að kanna með að sækja bætur til stofnunarinnar. Til greina kæmi að höfða skaðabótamál fyrir dómstólum.

MAST væri gjarnan að kanna hluti sem matvælaeftirlit Bandaríkjanna hefði þegar kannað. Það væri ekki góð ráðstöfun á skattfé. Benti hann á að matvælaeftirlit í Bandaríkjunum væri mjög gott. Það hefði til að mynda ekki komið á daginn að hrossakjöt væri selt þar sem nautakjöt eins og gerst hefði í Evrópusambandinu.

Jón Gerald Sullenberger á fundinum í morgun.
Jón Gerald Sullenberger á fundinum í morgun. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert