Kjör ekki bætt í gegnum skattkerfið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að það væri ekki best að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu á Íslandi í gegnum skattkerfið. Hann sagði að raunveruleg kjarabót yrði til með aukinni verðmætasköpun.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, en þar spurði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, Sigmund út í breytingar á skattkerfinu. Hún spurði hann einnig hvað stjórnvöld ætluðu að gera til að koma til móts við þá sem hafa lægst laun á Íslandi. 

„Háttvirtur þingmaður spyr: Hvernig er best hægt að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu? Þar greinir okkur sjálfsagt á vegna þess að það er ekki best að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu í gegnum skattkerfið. Áhrifin af slíkum breytingum fyrir þá lægstlaunuðu eru miklu minni en fyrir aðra. Þar verður að koma til raunveruleg kjarabót, raunveruleg launahækkun,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann sagði að raunveruleg launahækkun yrði til með aukinni verðmætasköpun og með því að innleiða lög sem fælu í sér hvata til að greiða hærri laun „en ekki hindranir eins og við sáum allt of mikið af á síðasta kjörtímabili, hindranir sem stuðla ekki að hærri launagreiðslum, aukinni vinnu eða aukinni verðmætasköpun heldur þvert á móti. Í þessi felst grundvallarstefnumunur á núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu. Við munum sjá það á næstu misserum og árum hvor leiðin er betur til þess fallin að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu,“ sagði Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert