Konur í forystusæti

Konurnar hvetja landsmenn til að setja lógóið í borða eða …
Konurnar hvetja landsmenn til að setja lógóið í borða eða nota sem vangamynd á Facebook. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana. mbl.is

Konur úr öllum stjórnmálaflokkum og fulltrúar þriggja stærstu kvennahreyfinga landsins boða til þverpólitískra jafnréttisaðgerða. Fyrsta aðgerðin felur í sér Facebook-bylgju, þar sem allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að setja þar til gert lógó sem kennimynd á Fésbókarsíður sínar, en aðrar aðgerðir verða kynntar í fyllingu tímans.

Hópurinn sem stendur fyrir aðgerðunum efndi til blaðamannafundar í Iðnó í hádeginu, þar sem lógóið var kynnt til sögunnar. Var tilgangur fundarins „að kynna sameiginlega aðgerð sem felur í sér hvatningu um að velja konur í forystusæti í stjórnmálum og atvinnulífinu almennt.“

Konurnar sem standa að aðgerðunum eru Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Pírata, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, Heiða Kristín Helgadóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar, Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands, Steinunn Stefánsdóttir, formaður Kvenréttindafélagsins, Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, formaður Landsambands framsóknarkvenna, Una María Óskarsdóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands, og Þórey Vilhjálmsdóttir, formaður Landsambands Sjálfstæðiskvenna.

Þær kvennanna sem tóku til máls á fundinum lýstu ánægju með þverpólitíska samstöðu um sókn kvenna í stjórnmálum og sögðu mikilvægt að sjónarmið allra kvenna fengju að heyrast, óháð pólitískum skoðunum.

Heiða Kristín Helgadóttir, fulltrúi Bjartrar framtíðar, varaði þá við sem bæru ugg í brjósti vegna framsóknar kvenna og hét því að hún væri að verða mikið vandamál.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, fagnaði átakinu en sagði að í raun hefði verið ráðist í fjölda sambærilegra átaksverkefna frá því að land byggðist. Hún sagði að það hefði verið átak á sínum tíma að ná sáttum um kynjakvóta og fléttulista innan Vinstri grænna en til að breytingar gætu orðið þyrftu karlar, ekki síður en konur, að taka forystu um framgöngu kvenna. Hún sagði baráttuna ekki eingöngu snúast um að taka rými, heldur þyrftu aðrir að gefa það eftir.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, formaður Landsambands framsóknarkvenna, sagði allt of margar konur sitja heima og telja úr sér kjarkinn. Hún sagði ómögulegt að bíða eftir tækifærum, heldur þyrftu konur að stíga fram og vera breytingin sem þær vildu ná fram.

Þórey Vilhjálmsdóttir, formaður Landsambands Sjálfstæðiskvenna, lagði áherslu á nauðsyn þess að fá fjölmiðla með í baráttuna og benti á að alltof fáir viðmælendur fjölmiðla væru konur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert