Íslenskan verði stafrænt gjaldgeng

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga af hálfu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um tímasetta aðgerðaáætlun sem hafi það að markmiði að íslenska verði gjaldgeng í stafrænni upplýsingatækni og stuðli að notkun hennar á þeim vettvangi. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar fyrir hönd nefndarinnar en hún átti frumkvæði að málinu.

„Það er Íslendingum mikilvægt að geta notað móðurmál sitt á sömu sviðum og aðrar þjóðir nota sitt móðurmál. Sá einstaklingur sem ekki getur notað móðurmál sitt við einhverjar aðstæður í landi sínu er settur skör lægra en aðrir. Málnotkun hefur færst inn á nýjan og áður ókunnan vettvang og aðrar væntingar og þarfir beinast að tungumálinu. Rafræn miðlun ritaðs máls og talmáls eykst í sífellu og að sama skapi fjölgar notkunarmöguleikum tungumálsins er það verður tjáskiptatæki milli manna og véla með hjálp talgervla og forrita sem breyta talmáli í stafræn boð og stafrænum merkjum í málhljóð,“ segir í fréttatilkynningu.

Þá segir að tillagan geri ráð fyrir að Alþingi feli mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem skili tímasettri aðgerðaáætlun í síðasta lagi 15. maí 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert