Stjórnvöld sniðgangi vetrarólympíuleikana

EPA

Samtökin '78 krefjast þess að íslensk stjórnvöld bregðist opinberlega við þeim mannréttindabrotum sem hafi verið framin í Rússlandi. Samtökin vilja að Ísland fari að fordæmi annarra ríkja sem muni ekki senda sína æðstu embættismenn á vetrarólympíuleikana í Sochi, sem hefjast í næsta mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum. Það að senda embættismenn á leikana jafngildi stuðningi við „ríki og forseta sem lögfestir hatur og mannréttindabrot,“ að því er segir í tilkynningu.

„Jafnframt er skorað á ÍSÍ [Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands] og íslenska ólympíufara að styðja við baráttu hinsegin fólks með öllum mögulegum ráðum og halda þannig á lofti innihaldi 6. grunnreglu Ólympíusáttmálans um að Ólympíuhreyfingin eigi ekki samleið með mismunun.“

Samtökin '78 segja ennfremur, að á nýliðnu ári hafi borist ítrekaðar fréttir af hnignun mannréttindamála í Rússlandi; afskiptalaust ofbeldi, mannréttindabrot, óskiljanlega dóma og frelsisheftandi lagasetningu.

„Þar ber hæst lagasetning Dúmunnar þar sem „samkynhneigður áróður“ er bannaður. Fyrir hinsegin íbúa og gesti landsins þýðir hún aðeins eitt: Algera þöggun og útilokun heils þjóðfélagshóps. Hinsegin fólk í Rússlandi getur nú átt yfir höfði sér sektir og fangelsisdóma fyrir það eitt að sýna ást og tilfinningar á almannafæri, miðla upplýsingum eða veita ráðgjöf. Í kjölfarið hefur komið holskefla af hatursglæpum gegn hinsegin fólki, sem lögregla og yfirvöld taka sjaldan á.

Í ljósi þessara gífurlegu mannréttindabrota, ofbeldis og haturs er eðlilegt að íslenskir ráðamenn séu spurðir hvað þeir hafa gert til að gagnrýna þessa skelfilegu þróun og hvort og hvernig þeir hafa beitt rússnesk stjórnvöldum þrýstingi til að hverfa af þessari braut,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert