Fá börn fá þjónustu á hverri stöð

Fyrirburi á Vökudeild barnaspítala Hringsins
Fyrirburi á Vökudeild barnaspítala Hringsins Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Í lok síðasta árs tók Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ákvörðun um að færa ung- og smábarnavernd fyrirbura yfir á almennar heilsugæslustöðvar og leggja niður sérhæfða miðlæga þjónustu við þennan hóp barna og fjölskyldna þeirra.

Foreldrar fyrirbura lýstu í kjölfarið yfir óánægju sinni með þessa ákvörðun en frá árinu 2006 hefur sérhæfð ung- og smábarnavernd verið í boði á höfuðborgarsvæðinu fyrir börn ssem fædd eru fyrir 32. viku meðgöngu og/eða vega innan við 1.500 grömm. Félag íslenskra barnalækna sendi einnig frá sér ályktun vegna málsins þar sem breytingunni var harðlega mótmælt.

Hefði átt að leita staðfestingar landlæknis

Geir Gunnlaugsson, landlæknir, sendi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bréf vegna málsins þann 2. janúar. Þar kemur fram að landlækni hafi borist fregnir af breytingunum. Fyrirhugaðar breytingar á ungbarna- og smábarnavernd fyrirbura feli í sér meiriháttar breytingar og hefði með réttu átt að tilkynna þær til landlæknis og leita staðfestingar hans.

Í bréfinu fór landlæknir fram á að honum yrði veittar upplýsingar um aðdraganda breytinganna, faglegar forsendur og fyrirhugað skipulag þjónustunnar. Þá tók landlæknir einnig fram að hann hygðist kalla til fundar með fulltrúum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og annarra fagaðila með sérþekkingu á þessu sviði til að ræða á hvern hátt þjónustu við fyrirbura sé best fyrirkomið á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu.

Landlæknir fór einnig fram á að fyrirhuguðum breytingum á þjónustunni yrði frestað, enda lægi staðfesting landlæknis ekki fyrir að svo stöddu.

Breytingarnar taka gildi á næstu dögum

Að sögn Geirs barst svar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í gær vegna málsins. Þar leggur Heilsugæslan fram sínar hugmyndir varðandi þjónustuna og hvernig hún hyggst skipuleggja hana á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er ánægjulegt að sjá að fyrirhuguð framkvæmd hennar tekur að einhverju leyti mið af þeirri nálgun gagnvart þessum hópi barna og foreldra sem komið var á fót með þessari sérstöku fyrirburamóttöku í heilsugæslunni í Mjóddinni. Aftur móti er ljóst að fá börn fái þjónustu á hverri heilsugæslustöð og reynslan ein muni því skera úr um hvernig til takist,“ segir Geir.

Að öllu óbreyttu munu breytingarnar á þjónustunni því taka gildi á næstu dögum. Landlæknir mun að eigin sögn fylgjast með og sjá hvernig reynist í samvinnu við Heilsugæsluna og aðra hagsmunaaðila.

Frétt mbl.is: Fyrirburaþjónusta flyst á heilsugæslustöðvar

Frétt mbl.is: Barnalæknar mótmæla skerðingu

Frétt mbl.is: Mistök að skerða fyrirburaþjónustu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert