Hlaupið fer mjög hægt af stað

„Á meðan þetta fer svona hægt af stað, og virðist vera lítið, þá hafa menn ekki stórar áhyggjur í augnablikinu,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, sem átti í kvöld símafund með starfsmönnum Veðurstofu Íslands og fulltrúum lögreglustjórans á Hvolsvelli vegna hlaups úr Skaftárkötlum.

Lögreglumenn hafa sett sig í samband við íbúa í Skaftárdal vegna hlaupsins og munu fylgjast grannt með aðstæðum í nótt. Líkt og fram hefur komið var lýst óvissustig vegna hlaupsins. 

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er hlaupið ekki komið niður til byggða. Aftur á móti er þegar farin að finnast lítilsháttar jöklalykt í byggð. 

Víðir segir í samtali við mbl.is, að farið verði yfir stöðuna í birtingu í fyrramálið. Stefnt sé að því að fljúga yfir svæðið með vísindamönnum á morgun þegar tækifæri gefst. 

„Við erum búin að vera í sambandi við Landhelgisgæsluna og það verður tilbúin þyrla á morgun til að fara í það,“ segir Víðir.

„Þetta fer mjög hægt af stað, segja þeir á Veðurstofunni. Við fylgjumst með þessu og það er ekkert sem hægt er að gera fyrr en það er búið að skoða þetta í björtu á morgun,“ segir Víðir að lokum.

Veðurstofa Íslands sendi frá viðvörun rétt fyrir klukkan 18 í kvöld, en þar kom fram að rennsli Skaftár við Sveinstind hefði verið að aukast síðasta sólarhring og rafleiðni hefði einnig aukist.

„Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er mjög líklega hafið. Rennslið við Sveinstind er nú um 370 m3/s.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að brennisteinslykt finnist í Skaftárhreppi. Einnig hefur borist staðfesting á að hlaupvatn hafi náð niður í byggð, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Hlaupið kemur líklegast úr vestari Skaftárkatlinum, sem síðast hljóp úr í september 2012. Það fæst ekki staðfest fyrr en með sjónrænni athugun úr flugi yfir katlana,“ sagði í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert