Óvissustig vegna Skaftárhlaups

Skaftárjökull.
Skaftárjökull. mbl.is/RAX

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli lýsir yfir óvissustigi vegna gruns um að hlaup sé hafið úr Skaftárkötlum skv. upplýsingum frá Veðurstofunni. Hlaupið getur komið fram undan Tungnaárjökli eða Skaftárjökli í Skaftá.  

Á þessari stundu er það mat vísindamanna að um lítið hlaup sé að ræða, að því er fram kemur í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með framvindu mála.

Rétt er að benda þeim sem eru á ferð við Skaftá eða í grennd við upptök hennar eða við Skaftárkatla á Vatnajökli á eftirfarandi:

„Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið,“ segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert