Ekkert nýtt að frétta af hlaupi

Skaftárhlaup
Skaftárhlaup Kort af vef Veðurstofu Íslands

Ekkert nýtt er að frétta af hlaupi í Skaftá og staðan mjög svipuð og í gærkvöldi, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands sem fylgist með gangi mála fyrir austan. Ekki virðist sem um stórt hlaup sé að ræða.

„Við fundum ógurlega fýlu um dimmumótin,“ sagði Oddsteinn Kristjánsson, bóndi í Hvammi í Skaftártungu, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa orðið var við neinar breytingar á rennsli árinnar sjálfrar. Oddsteinn hefur orðið vitni að öllum hlaupum í Skaftá í sex áratugi.

Veðurstofan staðfesti síðdegis í gær að hlaupvatn hefði náð niður í byggð. Sérfræðingar hennar telja að hlaupið komi úr vestari Skaftárkatlinum, sem síðast hljóp úr í september 2012. Það fæst þó ekki staðfest fyrr en hægt verður að kanna það með þyrluflugi yfir katlana fyrir hádegi í dag. Flugvél Landhelgisgæslu Íslands, TF-SIF, er í umfangsmikilli skoðun og verður ekki flughæf út þennan mánuð.

Rennslið við Sveinstind er nú um 370 m3/s. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að brennisteinslykt finnist í Skaftárhreppi. Einnig hefur borist staðfesting á að hlaupvatn hafi náð niður í byggð. Hlaupið kemur líklegast úr vestari Skaftárkatlinum, sem síðast hljóp úr í september 2012. Það fæst ekki staðfest fyrr en með sjónrænni athugun úr flugi yfir katlana.

Tilkynning frá almannavörnum ríkisins frá því síðdegis í gær:

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli lýsir yfir óvissustigi vegna gruns um að hlaup sé hafið úr Skaftárkötlum skv. upplýsingum frá Veðurstofunni. Hlaupið getur komið fram undan Tungnaárjökli eða Skaftárjökli í Skaftá. 
Á þessari stundu er það mat vísindamanna að um lítið hlaup sé að ræða.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með framvindu mála.


Rétt er að benda þeim sem eru á ferð við Skaftá eða í grennd við upptök hennar eða við Skaftárkatla á Vatnajökli á eftirfarandi:

Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert