Umdeildur áramótaannáll átti að vera saklaust grín

Úr Keflavíkurannál 2013.
Úr Keflavíkurannál 2013. Skjáskot af Keflavíkurannál

„Það er aldrei lagt upp með að særa neinn,“ segir Sævar Sævarsson, einn höfunda hins umdeilda Keflavíkurannáls sem fluttur var á þorrablóti Keflavíkur um helgina og varð til þess að einn þeirra sem þar var fjallað um hyggst flytja úr bæjarfélaginu.

„Við erum ekki að fjalla beint um pólitík né er annálnum ætlað að vera pólitískur á nokkurn hátt, heldur reynum við að gera hnyttið efni sem fólk getur hlegið að,“ segir Sævar í samtali við vef Víkurfrétta.

Hannes Friðriksson var ósáttur við annálinn og hefur í kjölfarið ákveðið að flytja úr bæjarfélaginu. Í grein sem Hannes birtir á vef Víkurfrétta segist hann vera útmálaður neikvæðasti maður Reykjanesbæjar ásamt Guðbrandi Einarssyni.

Þykir miður að Hannesi hafi sárnað

Sævar segir að annállinn hafi mælst vel fyrir líkt og í fyrra. „Við erum ekki að þessu til þess að særa nokkurn. Það er það síðasta sem við förum af stað með. Sumt er fyndið eitt og sér og annað þarf aðeins að vinna með. Grínið með Hannes og Guðbrand er hugsað þannig að þarna eru menn sem eru að vinna þarft verk, með því að skrifa greinar sem gagnrýna rekstur bæjarins, auk þess sem þeir benda á ýmislegt sem betur má fara í okkar samfélagi.“

Sævar segir að sé þyki miður að Hannesi hafi sárnað. „Ég ítreka að þetta var bara ætlað sem saklaust grín. Ég þekki Hannes bara að góðu einu og þykir margt til hans greina koma. Þetta er síður en svo einhver atlaga að honum. Við vonum svo sannarlega að hann haldi áfram að skrifa greinar í blaðið, það er þörf á manni eins og honum,“ segir Sævar í viðtalinu.

Frétt mbl.is: Ósáttur við þorraannál og flytur úr bænum

Hannes Friðriksson.
Hannes Friðriksson. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert