Fyrirtæki tekin af lífi án tilefnis

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Starfsaðferðir eru með þeim hætti að undrun sætir þar sem ekki eru fengnar heimildir til húsleitar á heimilum, vinnustöðum, skrifstofum og um borð í fiskiskipum. Heimilis- og persónuleg bókhöld eigenda og starfsmanna eru tekin og tölvur speglaðar og enginn veit hvað orðið er af öllum þeim gögnum sem tekin hafa verið í tilefnis- og árangurslausum rannsóknum.“

Þetta sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um Fiskistofu og vinnubrögð stofnunarinnar sem hann var málshefjandi að. Nefndi hann nokkur dæmi um rannsóknir Fiskistofu þar sem húsleit hafi verið gerð án leitarheimildar og gögn gerð upptæk en lokið með því að málin hafi verið felld niður og stofnunin orðið að endurgreiða sektir upp á tugi milljóna króna með vöxtum. Rannsókn þessara mála hafi tekið frá tveimur og upp í tæp fjögur ár. Eftir sæti „óverjandi kostnaður, óþægindi og algjört vantraust.“

Slíkar langvinnar rannsóknir og sektargreiðslur sem þeim hafi fylgt hafi meðal annars sett bankaviðskipti þeirra fyrirtækja sem í hlut ættu í uppnám sem og fréttir um að þau ættu hugsanlega yfir höfði sér himinháar sektir vegna meintra brota. „Hér má spyrja hvað þessar tilhæfulausu rannsóknir, mannorðsmissir og óþægindi hafi kostað. Fjölmiðlaumfjöllun ásamt fjölskipuðum dómstóli götunnar hafa hreinlega tekið fyrirtæki og einstaklinga „af lífi“ í áralangri meðferð Fiskistofu.“

Tilefnið oftast ábendingar „fólks utan úr bæ

Ásmundur sagði tilefni slíkra rannsókna í flestum tilfellum ábendingar „fólks utan úr bæ“ eða símtala sem hafi borist Fiskistofu. Rannsóknirnar væru síðan kallaðar tilviljanatengdar úttektir. „Heimildarlausar húsrannsóknir Fiskistofu á heimilum og vinnustöðum hafa vakið athygli fyrir fjölmennt lið lögreglu og starfsmanna Fiskistofu þar sem beitt er aðferðum sem líkjast frekar eiturlyfjarannsóknum eða alvarlegri afbrotum.“ Engar reglur væru síðan um skil gagna sem gerð væru upptæk.

Þingmaðurinn lagði áherslu á að opinberar stofnanir sem hefðu almannavald í höndum yrðu að ganga fram af hógværð og hafa í heiðri að enginn væri sekur fyrr en sekt hans væri sönnuð. Eftirlitsstofnanir ættu að vinna með fyrirtækjum en ekki gegn þeim. Beindi hann þeirri fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra hvort hann teldi ástæðu til að taka vinnuaðferðir Fiskistofu til skoðunar, lengd rannsókna, sönnunarbyrði og mat á upplýsingum utan úr bæ.

Sömuleiðis innti Ásmundur ráðherrann eftir því hvort ástæða væri til að hans mati að endurskoða rannsóknarheimildir og úrskurðarvald Fiskistofu sem og reglur og sektarákvæði stofnunarinnar með það fyrir augum að auka fælingarmátt til lögbrota með þyngri refsingum. Þá spurði hann hvort ráðherrann teldi ástæðu til þess að fram færi heildarendurskoðun á starfsemi stofnunarinnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert