„Þetta er gríðarleg fötlun“

Össur býður upp á sérsmíði á gervifótum og -höndum.
Össur býður upp á sérsmíði á gervifótum og -höndum. mbl.is/Þorvaldur

„Almenningur hefur oft miklar væntingar. Ef einhver missir útlim er viðhorfið oft á tíðum: „Já, já, þú færð góðan fót og þetta verður ekkert mál.“ En þó svo að fæturnir sem smíðaðir eru hjá Össuri séu afar góðir, þá er það að missa útlim heilmikið mál. Þetta er gríðarleg fötlun.“

Þetta segir Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir, endurhæfingarlæknir á Grensási, í samtali við mbl.is. Hún hélt í morgun tvo fyrirlestra á opnu málþingi á Læknadögum, sem fara fram þessa dagana í Hörpu. Hún ræddi annars vegar um raunveruleikann sem blasir við þeim sem missa útlim og hins vegar um draugaverki.

Tíðnin lægri hér en víða

Guðbjörg Kristín segir að á Íslandi séu á bilinu tíu til tuttugu manns aflimaðir á hverju ári. Tíðnin sé heldur sveiflukennd en mest hafi það verið árið 2011, þegar 25 manns voru aflimaðir.

„Í Bandaríkjunum eru um 185 þúsund manns aflimaðir á ári og ef þær tölur eru yfirfærðar á Ísland ættu um 185 manns að vera aflimaðir hér á landi árlega. Þannig að við erum með mun lægri tíðni en margar aðrar þjóðir, sem betur fer,“ segir hún.

Huga þarf að mörgu eftir aflimun. Guðbjörg Kristín segir að fyrst þurfi stúfurinn að gróa en hann er oft mjög bólginn fyrstu vikurnar eftir aðgerð. Móta þurfi stúfinn svo hann komist í gervifótinn og fer mikið púður í það. Þá þurfi viðkomandi að venjast því að vera ekki með fót og aðlagast stúfnum.

Ekki létt verk

Það er heldur ekki létt verk að læra að ganga á gervifæti, sérstaklega þegar aflimunin er ofan við hné. „Þú þarft að læra að ganga upp á nýtt, þú þarft að læra að treysta fætinum, þú þarft að læra hvernig þú átt að bregðast við þegar þú ert að detta, þú þarft að læra að fara upp og niður stiga, sinna hulsunni og hugsa um fótinn,“ segir hún.

„Þetta er heilmikil fræðsla og fjöldamargir hlutir sem fólk þarf að aðlagast og læra. Síðan þarftu að vera sjálfbjarga á annað hvort hækjum eða í hjólastól,“ útskýrir hún.

Í upphafi endurhæfingar eru því allir þjálfaðir í að verða sjálfbjarga í hjólastól. „Það er grunnfærnin sem fólk þarf að hafa.“

Guðbjörg Kristín segir að oftast sé það eldra fólk sem missir útlim. Um 80% þeirra sem eru aflimaðir séu sextíu ára og eldri. Þá séu verkjavandamál einnig stórt vandamál. Segir hún að um 80% þeirra sem eru aflimaðir séu með verki í stúf eða draugaverki. Sumir glími jafnvel við bæði.

Draugatilfinning og draugaverkir

Hvað felst í draugaverkjum?

„Flestallir sem missa útlim hafa það enn þá á tilfinningunni að fóturinn sé til staðar, þó svo að hann sé farinn. Heilinn fattar það einfaldlega ekki. Þér getur fundist sem svo að fóturinn sé í allskonar stellingum, eins og að snúið sé upp á hann og svo framvegis. Þér getur jafnvel fundist að þú sért að hreyfa tærnar, þó svo að þú sért ekki að gera það,“ segir hún.

„Það er draugatilfinning, sem flestallir sem missa útlim kannast við. En þegar þú færð verki í fótinn, sem geta verið mjög slæmir, þá erum við að tala um draugaverki.“

Mjög misjafnt sé hvenær verkirnir komi fram. Það geti verið eftir nokkra daga eða jafnvel mánuði. „Sumir hafa þá alla ævi meðan þeir dofna hjá sumum eftir vissan tíma,“ segir hún.

„Þetta eru breytingar sem eiga sér stað í tauginni, þar sem skorið er á taugina, í mænunni og upp í heila. Þetta er frekar flókið samspil. Það er stórt svæði í heilanum sem er vant að stjórna og skynja þessi svæði sem búið er að fjarlægja og það svæði er enn til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert