Fleiri hlynntir inngöngu í ESB

MMR kannaði nýlega afstöðu almennings til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 32,3% hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið nú, borið saman við 25,0% í janúar 2013 (15.-20. janúar 2013). Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 50,0% vera andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, borið saman við 62,7% í janúar 2013.

Spurt var: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)?
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur), frekar andvíg(ur), hvorki andvíg(ur) né hlynnt(ur), frekar hlynnt(ur), mjög hlynnt(ur), veit ekki og vil ekki svara.
Samtals tóku 90,0% afstöðu til spurningarinnar.

Fólk yfir 50 ára aldri var líklegra til að segjast hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB) en þeir sem yngri eru. Af þeim sem tóku afstöðu og voru hlynnt því að Ísland gangi í ESB voru hlutfallslega flestir á aldrinum 50-67 ára. 41,6% einstaklinga á aldrinum 50-67 ára sögðust hlynnt því að Ísland gangi í ESB, 35,6% einstaklinga á aldrinum 68 ára og eldri voru hlynnt inngöngu, 29,4% einstaklinga á aldrinum 30-49 ára voru hlynnt inngöngu og 26,3% einstaklinga á aldrinum 18-29 ára voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru frekar hlynntir inngöngu Íslands í ESB en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu sögðust 38,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 22,7% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni.

Hlutfall þeirra sem voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB hækkaði með auknum tekjum. Af þeim sem tóku afstöðu og voru með heimilistekjur undir 250 þúsund krónur á mánuði voru 19,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 28,3% þeirra sem höfðu tekjur á bilinu 250-399 þúsund, 34,5% þeirra sem höfðu tekjur á bilinu 400-599 þúsund, 40,0% þeirra sem höfðu tekjur á bilinu 600-799 þúsund og 39,1% þeirra sem voru í efsta tekjuflokk (800 þúsund á mánuði eða hærra) sögðust 39,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB.

Mikill munur var á afstöðu fólks eftir því hvort það kvaðst styðja ríkisstjórnina eða ekki. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu ríkisstjórnina voru 13,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 52,0% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.

Nokkur munur var á afstöðu til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Mikill meirihluti þeirra sem studdu Samfylkinguna voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB á meðan meirihluti þeirra sem studdu Framsóknar- og Sjálfsstæðisflokkinn voru andvíg inngöngu. Afstaða stuðningsfólks annarraflokka var ekki jafn einsleit. 
Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Samfylkinguna voru 83,1% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 9,2% þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn og 11,8% þeirra sem sögðust styðja Sjálfsstæðisflokkinn.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára  og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 981 einstaklingar 
Dagsetning framkvæmdar: 9.-15. janúar 2014

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert