Niðurstöðurnar valda vonbrigðum

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Styrmir Kári

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að niðurstöður atkvæðagreiðslna um kjarasamningana hafi valdið vonbrigðum. Ekki sé þó hægt að draga neinar afgerandi ályktanir af niðurstöðunum þar sem kosningaþátttakan hafi verið lítil.

Í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins segir að 25 félög hafi samþykkt kjarasamningana en 24 fellt þá. Á kjörskrám hafi verið rúmlega 75 þúsund manns og 52% þeirra séu félagsmenn í félögum sem samþykktu samningana en 48% í félögum sem felldu þá. Einungis 9% atkvæðisbærra hafi greitt atkvæði gegn þeim. 

Snúin staða komin upp

Í fréttinni segir Þorsteinn að niðurstöðurnar valdi vonbrigðum vegna þess að markmið samninganna um bætt lífskjör landsmanna samfara efnahagslegum stöðugleika skili meiri ávinningi fyrir heimili og atvinnulíf en aðrir kostir.

„Hverju sem sætir er ljóst að snúin staða er komin upp sem gera má ráð fyrir að nokkurn tíma taki að greiða úr. Það er hins vegar ljóst að launahækkanir munu taka gildi hjá rúmlega helmingi félagsmanna ASÍ. Þær hækkanir marka línuna hvað varðar launabreytingar annarra hópa á þessu ári og munu SA ekki hvika frá henni í þeim viðræðum sem framundan eru við stéttarfélögin,“ segir Þorsteinn.

Svigrúmið ekkert hjá hinu opinbera

Þrátt fyrir fellda samninga sé úrlausnarefnið það sama og áður. Kjarasamningar verði að byggjast á því efnahagslega svigrúmi sem launagreiðendur, fyrirtæki og hið opinbera, hafa til að greiða hærri laun.

„Svigrúmið er afar takmarkað í atvinnulífinu um þessar mundir og ekkert hjá hinu opinbera. Það svigrúm sem fjallað hefur verið um að hafi verið fullnýtt í samningunum byggir í raun ekki á mati á getu atvinnulífsins til að taka á sig aukinn kostnað án verðhækkana, heldur var farið að ystu mörkum þeirra launabreytinga sem Seðlabankinn telur að geti samrýmst verðstöðugleika,“ nefnir Þorsteinn.

Herferðin hafi skilað árangri

Þá segir í fréttinni að Samtök atvinnulífsins muni halda ótrauð áfram að vinna að þeirri stefnumörkun að varanlegur efnahagslegur stöðugleiki náist. Samtökin hafi fulla trú á því að það takist með þeirri leið sem mótuð hafi verið á undanförnum mánuðum.

Jafnframt segir Þorsteinn að herferð samtakanna gegn verðbólgu hafi þegar skilað árangri. Það muni koma í ljós á næstu vikum og mánuðum í mælingum Hagstofunnar á verðbólgu og könnunum á verðbólguvæntingum stjórnenda fyrirtækja og almennings.

Samtökin hvetja því áfram stjórnendur fyrirtækja til þess að halda aftur af verðhækkunum. Þá er alveg skýrt að ríkisstjórnin verður að standa við sinn hluta í hjöðnun verðbólgunnar og lækka gjaldskrár sem hækkuðu um síðustu áramót. Annað er óhugsandi,“ segir Þorsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert