Kölluðu eftir óháðri rannsókn

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kölluðu eftir því á Alþingi í dag að innanríkisráðuneytið léti framkvæma ítarlega og óháða rannsókn á því hvort gögnum með persónulegum upplýsingum um hælisleitanda hefði verið lekið úr ráðuneytinu. Sögðu þeir ekki nóg að innanríkisráðuneytið sjálft hefði framkvæmt slíka athugun. Sérstök umræða fór fram um málið á Alþingi í dag að frumkvæði Valgerðar Bjarnadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var fyrir svörum og sagði mikilvægt að tryggt væri með sem bestum hætti að slíkar trúnaðarupplýsingar lentu ekki í höndum óviðkomandi. Slíkar upplýsingar hefðu verið taldar vel varðar innan íslensku stjórnsýslunnar. Hún ítrekaði ennfremur það sem áður hefði komið fram að niðurstöður athugunar innanríkisráðuneytisins væru á þá leið að ekkert benti til þess að umræddum gögnum hefði verið lekið úr ráðuneytinu. Þá sagði hún málið núna vera í eðlilegum farvegi hjá embætti Ríkissaksóknara.

Sakaði Valgerði um trúnaðarbrot

Valgerður sagði mikilvægt að hælisleitendur gætu treyst því að stjórnvöld á Íslandi færu eftir þeim reglum sem giltu í landinu. Það væri alvarlegt ef svo væri ekki. Vitnaði hún meðal annars til umræðu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem Hanna Birna sat. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á því að slík tilvitnun í orð ráðherra á fundinum færi gegn ákvæðum þingskapalaga um trúnað. Valgerður ætti því að huga betur að eigin trúnaði áður en hún gagnrýndi aðra.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að það sem gerði málið ljótt væru viðbrögð innanríkisráðherra við því. Þau hefðu verið á þá leið að bera sakir af innanríkisráðuneytinu. Þess í stað hefði ráðuneytið átt að hafa frumkvæði að því að gera óháða úttekt á málinu. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, tók einnig undir það sjónarmið að sjálfstæð rannsókn færi fram enda mikilvægt að hreinsa ráðuneytið af umræddum ásökunum. Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, upplýsti að hann hefði umrædd gögn, minnisblað, undir höndum og annaðhvort væri það úr ráðuneytinu eða undirstofnun þess eða þá góð fölsun.

Rétt að bíða niðurstöðu Ríkissaksóknara

Sigurjón Kjærnested, varaþingmaður Framsóknarflokksins, tók einnig til máls í umræðunni og lagði áherslu á að ekkert hefði komið fram um að gögnunum hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu. Málið benti til þess að stjórnarandstaðan ætti í vandræðum með að finna sér mál til þess að leggja áherslu á. Kallaði hann þess utan eftir því að stofnuð yrðu heildarsamtök innflytjenda hér á landi með það að markmiði að standa vörð meðal annars um hagsmuni hælisleitenda.

Hanna Birna lauk umræðunni og tók undir það að Valgerður ætti að huga betur að eigin trúnaði. Hún skoraði á Mörð Árnason að upplýsa hvar hann hefði fengið minnisblaðið sem hann hefði undir höndum en það kæmi ekki heim og saman við nein gögn í innanríkisráðuneytinu. Ítrekaði hún að málið væri í réttum farvegi hjá embætti Ríkissaksóknara. Rétt væri að bíða eftir niðurstöðu þess áður en dómar væru felldir. Lauk hún máli sínu á því að svo virtist sem málið snerist um eitthvað allt annað en persónulegar upplýsingar hælisleitanda. Það virtist snúast um pólitík.

Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður.
Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður. mbl.is/Frikki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert