„Birtingarmynd refsiþorstans“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vakti athygli á dómi yfir Catherine Rojo Correa. Hún var dæmd í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum. 

Helgi las upp úr dómnum, þar sem meðal annars kemur fram að kunningjar hennar, sem hún segir að hafi neytt sig til flutninganna, hafi með valdi troðið tveimur pakkningum af fíkniefnum upp í leggöng hennar. Annar maðurinn sat klofvega á henni meðan þetta fór fram. Þeir hótuðu fjölskyldu hennar ofbeldi ef hún ekki færi möglunarlaust með fíkniefnin til Íslands.

Helgi Hrafn vitnar í dóminn: „Við líkamsleit tollvarða fannst ein pakkning af meintu kókaíni í nærbuxum hennar sem vigtaði 108 g. Ákærða gat ekki losað sig við hina pakkninguna og var hún flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en þar var tekin ákvörðun um að flytja hana á kvennadeild Landsspítalans þar sem hún var svæfð og fíkniefnin sótt af lækni.

Játning ákærðu er í samræmi við önnur gögn málsins og framburður hennar um að hún hafi verið neydd til ferðarinnar er trúverðugur. [...] Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.“

Hann segir konuna vera enn eitt fórnarlamb hins svokallaða dópstríðs. 

„Þetta er birtingarmynd refsiþorstans sem einkennir viðhorf yfirvalda til fíkniefnamála. Þessi dómur er ekki vegna geðþótta dómarans, heldur vegna meðvitaðrar ákvörðunar löggjafarvaldsins. Catherine átti skilið hjálp. [...] En henni þurfti að refsa. Dæmi enginn kvalara hennar, nema löggjöfina með.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert