Fleiri yfir á rauðu á fimmtudögum

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Mikill munur er á því hvort ökumenn virða rautt ljós eftir því hvaða vikudagur er. Síðustu tvær vikur hefur VÍS kannað hvort bílum sé ekið yfir á rauðu ljósi á gatnamótum hjá Olís við Fjallkonuveg á háannatíma að morgni til. Á mánudögum var bíl ekið yfir á rauðu í þriðja hvert skipti en á fimmtudögum í 57% tilfella. Oft fóru tveir bílar hverju sinni yfir á rauðu ljósi á þessari tveggja akreina götu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS.

Umferðarslys við þessar aðstæður verða oft alvarleg þar sem sá sem ekur yfir á rauðu er oft á þó nokkrum hraða. Svona ökulag tefur einnig fyrir að gatnamót tæmist og hægir á flæði umferðarinnar. Á stærri gatnamótum teppast bílar jafnvel á miðju þeirra þegar þeim er ekið of seint út á, sér í lagi á beygjuljósum, með þeirri slysahættu sem af því hlýst.

Síðustu ár hafa um 80 viðskiptavinir VÍS að jafnaði lent í umferðarslysi á ári hverju þar sem ekið er gegn rauðu ljósi á gatnamótum. Ef allir virtu skilaboð umferðarljósanna mætti uppræta þessi tjón. Sök þess sem fer yfir á rauðu er algjör.

Sekt við að aka gegn rauðu ljósi er 15.000 kr. auk þess sem ökumaður fær tvo punkta í ökuferilsskrá sína. Með 12 refsipunkta á innan við 3 árum eða 7 punkta ef viðkomandi er með bráðabirgðaskírteini missa menn ökuréttindin í þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert