Hótar refsiaðgerðum vegna makrílsins

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins. AFP

Færeyingum og Íslendingum hefur verið gert rausnarlegt tilboð um lausn makríldeilunnar af hálfu Evrópusambandsins og taki þeir því ekki fyrir lok þessarar viku mun sambandið hefja samninga við Norðmenn án aðkomu þjóðanna tveggja. Taki Færeyingar og Íslendingar ekki tilboðinu kunna þjóðirnar ennfremur að standa frammi fyrir refsiaðgerðum.

Þetta segir Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, í samtali við fréttavef þýska blaðsins Spiegel í dag. Viðræður hófust í Bergen í Noregi í morgun um lausn deilunnar. „Möguleikinn á refsiaðgerðum er enn til staðar,“ segir hún. Hins vegar vonist hún eftir að samningar náist á síðustu stundu. Viðræður við Íslendinga og Færeyinga að undanförnu gefi vonir um að það takist.

Evrópusambandið hefur boðið Íslendingum og Færeyingum 11,9% hlutdeild í árlegum makrílkvóta en þjóðirnar hafa til þessa farið fram á 15-16% hlutdeild. Norðmenn telja hins vegar 11,9% vera of hátt hlutfall og hafa lagst gegn því. Sama er að segja um stjórnvöld á Írlandi en þau eru hins vegar ekki beinir aðilar að viðræðunum heldur semja fulltrúar Evrópusambandsins fyrir hönd þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert