Bentu á galla skipulagsins í fyrra

Aðalskipulag Reykjavíkur rekst á hraðahindrun.
Aðalskipulag Reykjavíkur rekst á hraðahindrun. mbl.is/Þorkell

Skipulagsstofnun vísaði nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar til baka, eins og fram kom í frétt á mbl.is í gær.

Hjálmar Sveinsson, varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að athugasemdir Skipulagsstofnunar kæmu ekki á óvart. Embættismenn borgarinnar séu að lesa þær yfir. Þær verði ennfremur teknar fyrir bæði í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði í næstu viku. „Við teljum ekki að þetta kalli á meiriháttar breytingar [á aðalskipulaginu],“ sagði Hjálmar.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að bent hafi verið á ágalla á aðalskipulaginu í fyrra. Í bókun sem hann og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi gerðu í júní lögðust þeir gegn því að tillagan væri sett í auglýsingu. Aðrir borgarfulltrúar flokksins fögnuðu hins vegar tillögunni.

Júlíus Vífill segir ennfremur að í bókun frá því í júlí hafi hann og Kjartan bent á að „[t]illaga að aðalskipulagi [sé] í grundvallaratriðum vanhugsuð. Hún [byggi] á því að flugvöllurinn fari og uppbygging muni hefjast á flugvallarsvæðinu eftir þrjú ár. Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að flutningur á flugstarfsemi sé ekki einkamál borgarinnar heldur verði að byggja á samkomulagi hennar við samgönguyfirvöld á landsvísu.“

„Það var haldið áfram engu að síður. Það hefði verið eðlilegt að menn greiddu úr áður en skipulagið væri sent í kynningu,“ segir Júlíus Vífill.

Ekki bara spurning um flugið

Hann segir aðalskipulagið ekki bara snúast um Vatnsmýrarsvæðið og hvort innanlandsflug verði þar áfram. „Þetta er líka spurning um uppbyggingarsvæði í borginni. Um leið og ekkert verður af uppbyggingu sem er fyrirhuguð í Vatnsmýrinni þá þarf að finna henni stað annarsstaðar, ef þetta fer eins og Skipulagsstofnun bendir á,“ segir hann.

Júlíus Vífill horfir einkum til frekari nýtingar á svæðinu í Úlfarsárdal. „Við höfum bent á að það er eðlilegt að þétta byggð, en þá þannig að það sé jafnvægi milli borgarhluta og ekki allt á einum stað. Það þarf líka að þétta byggð í Úlfarsárdal og nýta stoðir hverfisins til frekari uppbyggingar.“

Uppbygging á svæðum á borð við Úlfarsárdal sé hins vegar háð því að atvinnuuppbygging verði líka á þeim svæðum. Til að atvinnusvæði eins og Höfðinn geti þróast í blandaða byggð segir Júlíus að það þurfi að skapa nýja aðstöðu fyrir iðnfyrirtæki til uppbyggingar. „Fyrir því hefur ekki verið hugsað. Öll áform um uppbyggingu sem lýtur að grófum iðnaði í Álfsnesi voru lögð af. Það er ástæðan fyrir því að fyrirtæki á borð við Björgun og Hringrás eru hálfpartinn föst þar sem þau eru.“

Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert