„Hef fengið nokkra uppreisn æru“

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Ragnar Axelsson

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, segir ágreiningi sínum og Háskóla Íslands lokið eftir samkomulag milli hans og Kristínar Ingólfsdóttur rektors. Með samkomulaginu telji hann sig hafa fengið „nokkra uppreisn æru“.

Forsagan er sú að ráðning Jóns Baldvins sem stundakennara í Evrópufræðum við Háskóla Íslands var dregin til baka vegna mótmæla innan stjórnmálafræðideildar skólans. Voru mótmælin byggð á meintum kynferðisbrotum Jóns Baldvins. Hann hefur ítrekað neitað sök en beðið þá sem í hlut eiga afsökunar.

Jón Baldvin gagnrýndi ákvörðun háskólans harðlega í blaðagreinum og hafa lögmenn hans og rektors nú haft milligöngu um samkomulag sem felur meðal annars í sér að Háskóli Íslans greiðir honum 500 þúsund krónur fyrir áfallinn kostnað og töpuð laun, að fjárhæð 190 þúsund krónur.

Jón Baldvin álítur hluta greiðslunnar umfram áætlað fjárhagslegt tjón ígildi miskabóta en háskólinn fellst hins vegar ekki á bótaskyldu í málinu.

Málið úr sögunni

Mbl.is ræddi við Jón Baldvin símleiðis en hann dvelur nú í spænska bænum Salobrena.

- Hver eru þín viðbrögð við samkomulaginu?

„Ég er sáttur við þessi málalok.“

- Er málið þá úr sögunni af þinni hálfu?

„Já.“

Setti ekki fram kröfu í krónum og aurum

- Þarna er vikið að kostnaði. Rætt er um 500 þúsund krónur. Upp eru taldar miskabætur, greiðsla fyrir töpuð laun og áfallinn kostnað. Duga þessar 500 þúsund krónur fyrir þessum útgjöldum?

„Já, og gott betur.“

- Var krafa þín ef til vill hærri?

„Ég setti ekki fram kröfu í krónum og aurum. Ég setti fram þá kröfu í prinsippi að háskólinn viðurkenndi að hafa brotið á mér rétt og að ég ætti rétt á miskabótum. Háskólinn út af fyrir sig fellst ekki á það, ekki á bótaskyldu. En rök mín eru að með því að greiða umtalsvert umfram kennslulaun og áfallinn lögfræðikostnað að þá sé það de facto miskabætur.“

Hefur kennt við hátt í 20 háskóla

- Mundu sækjast eftir kennslu við Háskóla Íslands aftur?

„Nei. Satt að segja ekki. Ég er að byrja kennslu í Háskólanum í Tartu í Eistlandi eftir nokkrar vikur. Þar verð ég gestafræðimaður við rannsóknarstofnun sem fjallar um málefni Austur-Evrópu og Sovétríkjanna. Ég mun kenna þar.

Ég kenndi í fyrra við Háskólann í Vilnius í Litháen og ef ég fer rétt með held ég að ég hafi verið fyrirlesari og gestakennari við eitthvað um 15 háskóla í Bandaríkjunum og Evrópu. Svo að mér er nú engin nauðsyn að halda til streitu óskum um að kenna við Háskóla Íslands, enda bað ég ekki um það. Ég fékk starfstilboð sem ég þáði.“

 „Bara gamall pólitíkus“ 

- Nú eru fleiri háskólar á Íslandi. Hefurðu hug á því að kenna við hina háskólana?

„Ég hef verið þar sem gestafyrirlesari. Við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Ég er ekki að sækjast eftir því að hefja akademískan feril, enda bara gamall pólitíkus.“

- Þannig að það kemur til greina að kenna við hina háskólana á Íslandi, ef eftir kröftum þínum verður leitað?

„Já, ég hef alltaf verið bóngóður um það ef til mín er leitað um eitthvað sem menn telja að sé þess virði að hafa fyrir því.“

Hefur „nokkra uppreisn æru“ 

- Nú var þetta erfitt mál fyrir þig. Hvernig líður þér við þessi málalok?

„Mér finnst ég hafa fengið nokkra uppreisn æru.“

 - Er eitthvað sem þú vilt segja um framgöngu tiltekinna einstaklinga innan umræddrar deildar innan Háskóla Íslands?

„Nei. Sem fæst orð.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert