Oftast innanbúðarmaður

Magnús Geir, nýr útvarpsstjóri.
Magnús Geir, nýr útvarpsstjóri. Þórður

Magnús Geir Þórðarson, leikstjóri og leikhúsfræðingur, er aðeins annar maðurinn sem ráðinn er í starf útvarpsstjóra án þess að hafa starfað hjá stofnuninni áður. Hinn er séra Heimir Steinsson. Hvorugur hafði reynslu úr fjölmiðlum. Hinir útvarpsstjórarnir höfðu unnið misjafnlega lengi hjá Ríkisútvarpinu.

Níu manns hafa gegnt embætti útvarpsstjóra frá því Ríkisútvarpið tók til starfa árið 1930. Aðeins tveir hafa tekið við starfinu án þess að hafa starfað áður hjá stofnuninni og við fjölmiðlun yfir höfuð, séra Heimir Steinsson og Magnús Geir Þórðarson. Þá er fyrsti útvarpsstjórinn, Jónas Þorbergsson, að sjálfsögðu undanskilinn. Sigurður Þórðarson, Vilhjálmur Þ. Gíslason, Andrés Björnsson, Markús Örn Antonsson, Pétur Guðfinnsson og Páll Magnússon höfðu allir unnið hjá Ríkisútvarpinu í lengri eða skemmri tíma. Páll og Jónas eru þeir einu sem höfðu umtalsverða reynslu af öðrum fjölmiðlum.

Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson frá Helgastöðum í Reykjadal sem gegndi embættinu í tæpan aldarfjórðung, 1930-53. Jónas var gagnfræðingur frá Akureyri, kenndi í einn vetur í Reykjadal og sinnti síðan ýmsum störfum í Kanada í sex ár. Hann var ritstjóri Dags á Akureyri 1920-27 og ritstjóri Tímans í Reykjavík 1927-29. Jónas sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 1931-33 meðfram starfi sínu sem útvarpsstjóri. Hann samdi líka bækur ýmislegs efnis og fjölda greina sem birtust í blöðum og tímaritum, einnig samdi hann sönglög. Sonur Jónasar, Jónas Jónasson, varð síðar einn ástsælasti útvarpsmaður þjóðarinnar.

Sigurður Þórðarson, tónskáld og skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins frá upphafi, leysti Jónas Þorbergsson tímabundið af sem útvarpsstjóri, 1950-52.

Reyndur útvarpsmaður

Vilhjálmur Þ. Gíslason tók við starfi útvarpsstjóra 1953 og gegndi því til 1967. Hann var með meistaragráðu í norrænum fræðum, var afkastamikill rithöfundur, skólastjóri Verslunarskóla Íslands í rúma tvo áratugi og starfsmaður Ríkisútvarpsins frá því það hóf göngu sína. Vann þar sem fréttamaður, bókmenntaráðunautur og fleira. Réttnefndur innanbúðarmaður. Vilhjálmur var útvarpsstjóri þegar sjónvarp hóf göngu sína á Íslandi, 1966.

Andrés Björnsson var útvarpsstjóri frá 1968 til 1984. Hann var cand. mag. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands, starfaði í breska upplýsingaráðinu um tíma og sótti námskeið í útvarps- og sjónvarpsfræðum við Boston-háskóla í Bandaríkjunum. Hann var skrifstofustjóri útvarpsráðs 1951-52, skipaður dagskrárstjóri 1958-67 og skipaður útvarpsstjóri frá 1. janúar 1968. Andrés var lektor í íslenskri bókmenntasögu við Háskóla Íslands 1965 til 1968.

Andrés lagði jafnframt stund á ritstörf og þýðingar og birtust ritsmíðar hans m.a. í Skírni og afmælisritum, ásamt því að hann þýddi skáldverk og leikrit, sögur og greinar eftir marga virta höfunda, þar á meðal Knut Hamsun og Somerset Maugham, og ritaði formála ljóðasafna. Þá flutti hann í starfi sínu sem útvarpsstjóri ávörp á gamlárskvöld frá árinu 1968 til 1984, en þau voru gefin út í heild sinni í bókinni Töluð orð árið 1985.

Markús Örn Antonsson tók við af Andrési, í ársbyrjun 1985. Bakgrunnur hans var í fjölmiðlum. Með menntaskólanámi vann hann sem blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu en eftir stúdentspróf frá MR lagði hann stund á nám í fréttamennsku og framleiðslu sjónvarpsefnis í Bretlandi og Svíþjóð. Markús Örn var einn af fyrstu fréttamönnum sjónvarps, auk þess sem hann sinnti dagskrárgerð. Hann var borgarfulltrúi á árunum 1970 til 1985.

Markús Örn tók aftur við starfi útvarpsstjóra 1998 og gegndi því til 2005. Í millitíðinni var hann meðal annars borgarstjóri í Reykjavík 1991-94.

Prestur varð útvarpsstjóri

Þegar Markús Örn lét af embætti í fyrra skiptið, í október 1991, var séra Heimir Steinsson ráðinn útvarpsstjóri. Hann stundaði nám í fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla og íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Sr. Heimir lauk guðfræðiprófi frá Háskólanum og stundaði framhaldsnám í trúfræði og almennri kirkjusögu við háskólann í Edinborg. Þá sótti hann námskeið í norskum, dönskum og sænskum lýðháskólum og kenndi jafnframt við lýðháskóla í Noregi og Danmörku.

Sr. Heimir stundaði ýmis störf meðfram námi og rak m.a. forskóla fyrir börn í Laugarneshverfi. Hann var sóknarprestur í Seyðisfjarðarprestakalli árin 1966-68 og var jafnframt stundakennari við Barna- og unglingaskólann þar. Hann var rektor Lýðháskólans í Skálholti, síðar Skálholtsskóla, frá stofnun haustið 1972 til ársins 1982. Þá var hann sóknarprestur í Þingvallaprestakalli og jafnframt þjóðgarðsvörður og gegndi hann því embætti til ársins 1991. Sr. Heimir lét af starfi útvarpsstjóra í desember 1996 en þá var hann skipaður í embætti sóknarprests og staðarhaldara á Þingvöllum.

Pétur Guðfinnsson var settur útvarpsstjóri 1996 en lét af störfum ári síðar fyrir aldurs sakir. Pétur var framkvæmdastjóri Sjónvarpsins frá stofnun þess árið 1966 og staðgengill útvarpsstjóra í fjarveru hans allt þar til hann tók við starfi útvarpsstjóra.

Páll Magnússon leysti Markús Örn af hólmi 2005. Hann er með próf í stjórnmálsögu og hagsögu frá Háskólanum í Lundi. Páll hafði að mestu unnið á fjölmiðlum áður en hann tók við starfinu. Kenndi að vísu í tvo vetur og var um tíma framkvæmdastjóri Samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar.

Páll var blaðamaður á Vísi, fréttastjóri á Tímanum og sjónvarpsfréttamaður hjá RÚV, auk þess að gegna ýmsum yfirmannastöðum hjá fyrirtækinu sem nú heitir 365. Var meðal annars forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar og sjónvarpsstjóri Stöðvar 2.

Magnús Geir Þórðarson er yngsti maðurinn til að taka við starfi útvarpsstjóra. Hann er fertugur að aldri, fæddur 7. október 1973. Hann veltir Markúsi Erni Antonssyni úr sessi en hann var 41 árs þegar hann var ráðinn í fyrra skiptið og Jónas Þorbergsson 45 ára.

Andrés Björnsson var fimmtugur, Páll Magnússon 51 árs, séra Heimir Steinsson 54 ára, Sigurður Þórðarson 55 ára og Vilhjálmur Þ. Gíslason 56 ára. Elsti maðurinn til að taka við embætti útvarpsstjóra er Pétur Guðfinnsson. Hann var 67 ára árið 1996.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert