Stjórnarflokkar með aukið fylgi

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bæta báðir við sig tæplega tveggja prósentustiga fylgi miðað við síðasta mánuð, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV. Fylgi Bjartrar framtíðar eykst um eitt prósentustig en engin breyting er á fylgi Samfylkingar og Vinstrihreyfingar Græns framboðs.

Mesta breytingin er á fylgi Pírata, en það minnkar um tæplega þrjú prósentustig, og myndu um átta prósent kjósa flokkinn ef gengið yrði nú til kosninga samkvæmt könnuninni.

Um 27 prósent myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og rúmlega 18 prósent Framsóknarflokkinn. 

Nær 15 prósent myndu kjósa Samfylkinguna og nær 13 prósent Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Þá myndu tæplega 5 prósent kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á þingi.

Fylgi Bjartrar framtíðar eykst um eitt prósentusig og myndu rúmlega 14% kjósa flokkinn nú.

Capacent Gallup framkvæmdi könnunina á dögunum 3. til 29. janúar 2014 og var heildarúrtaksstærð 5.536. Þáttökuhlutfall var 29,2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert