Ísing gæti myndast á vegum

Á norðvesturlandi fara víða saman blautir vegir, hægur vindur og útgeislun og því aðstæður til ísingarmyndunnar á vegum þar snemma kvölds. Seint í kvöld hvessir með suður og suðausturströndinni og þar má búast við vindhviðum allt að 30 m/s í Öræfum og undir Eyjafjöllum fram á nótt.

Hálkublettir er á Hellisheiði en hálka á efri hluta Landvegar en annars eru hálkublettir nokkuð víða á Suðurlandi. Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi, einkum á fjallvegum. Á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði er hálka og þoka.

Það er hálka eða hálkublettir á vegum á Vestfjörðum en snjóþekja á Þröskuldum. Ófært er frá Bjarnarfriði og norður í Árneshrepp á Ströndum.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir á vegum og þoka í Hrútafirði og Miðfirði. Þoka er einnig á Hófaskarði og Sandvíkurheiði.

Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Austurlandi en hálka og þoka á Fjarðarheiði. Greiðfært er frá Egilsstöðum og áfram með suðausturströndinni.

Vegna ræsagerðar verður Bíldudalsvegur við Keldeyrará lokaður í dag, miðvikudaginn 5. febrúar, frá klukkan 19-22. Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir daginn, frá kl. 8:00 til 19:00 fram á föstudaginn 7. febrúar. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert