Loftið titrar af herþotugný

Úr æðarvarpi. Mynd úr safni.
Úr æðarvarpi. Mynd úr safni. mbl.is

„Loftið hefur titrað af herþotugný hér við Breiðafjörðinn, þær þutu fram og til baka, veltandi sér og takandi snöggar beygjur, og voru sex hver á eftir annarri þegar þær geystust síðan norður fyrir og yfir í Ísafjarðardjúp,“ segir Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ á Reykjanesi, sem er eitt dúnbýlanna í Reykhólasveit, í samtali við blaðamann Reykhólavefnum.

Að undanförnu hafa herþotur þotið um loftið í Breiðafirði og nágrenni en þær eru þar við æfingar. Ása Björg segist ekki skilja af hverju æfingarnar þurfi að fara fram á svæðinu, en þar er mikið um æðafuglavarp.

Óheimilt að trufla örninn

Í fréttinni segir einnig að nær heyrnarlaus maður á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum hafi um stund talið að hann hefði endurheimt heyrnina, líkt og fyrir kraftaverk, þegar hann hrökk upp af blundinum eftir hádegið við læti. „En þetta voru þá bara herþoturnar að æfa sig og heyrnin engu skárri en verið hefur.“

„Óheimilt er lögum samkvæmt að koma nærri arnarsetrum eða trufla örninn á nokkurn hátt. Þó gera stjórnvöld eina undantekningu: Útlendar herþotur fá góðfúslega að fljúga í lágflugi yfir varpstöðvum arnarins við Breiðafjörð með tilheyrandi drunum og hljóðmúrssprengingum. Stærstur hluti íslenska arnarstofnsins á búsvæði sín við Breiðafjörð,“ segir í fréttinni.

„Stofninn er í hægum vexti eftir að hafa nánast dáið út um 1960. Örninn er mjög viðkvæmur í varpi og því er óheimilt að fara nær arnarhreiðri en í hálfs kílómetra fjarlægð nema um sé að ræða landeiganda við hefðbundna nýtingu lands. Eða útlendar orustuþotur.“

Frétt Reykhólavefsins í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert