Bíllausir með 80% meiri greiðslugetu

Arion banki reiknar bíllausa með 80% meiri greiðslugetu við greiðslumat …
Arion banki reiknar bíllausa með 80% meiri greiðslugetu við greiðslumat samanborið við þá sem eiga bíl. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar lánastofnanir greiðslumeta einstaklinga sem hafa sótt um fasteignalán er gert ráð fyrir ákveðnum forsendum.

Þær lánastofnanir sem mbl.is ræddi við bentu á að helstu forsendur fyrir greiðslumati einstaklinga mætti finna í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Þar vekur þó athygli að viðmiðin hafa ekki verið uppfærð í rétt tæpt ár.

Styðjast við neytendalánalög

Af þessum viðmiðum má sjá að flestir þættir þeirra eru staðlaðir og lítið sem fólk getur gert til að hafa áhrif á þá. Í minnisblaði sem Íbúðalánasjóður (ÍLS) vann vegna fyrirspurnar mbl.is kemur meðal annars fram: 

„Í greiðslumati er uppgefinn framfærslukostnaður miðað við dæmigert viðmið velferðarráðuneytisins. Umsækjendur geta jafnframt valið að setja inn eigin tölur byggt á raunkostnaði. Rauntölurnar geta þó ekki orðið lægri en grunnviðmið velferðarráðuneytisins [...],“ en ÍLS styðst við ný neytendalánalög við greiðslumatið og reglugerð sem sett var með stoð í lögunum.

Um reglugerðina segir í minnisblaði ÍLS: „Í reglugerðinni er kveðið á um heimild til að lækka framfærslukostnað niður í 75% af grunnviðmiðum. Íbúðalánasjóður styðst við þessa heimild. Virkar það með þeim hætti að standist umsækjandi ekki greiðslumat miðað við eigin framfærslutölu í grunnviðmiði getur hann merkt við að hann óski eftir undanþágu og valið lægri framfærslutölu, þ.e. niður í allt að 75% af grunnviðmiðum sbr. framangreint. Með undanþágubeiðni þarf að skila rökstuðningi og gögnum um framfærslu sem styðja við þá framfærslu sem tekin er fram á greiðslumati.“

Bíllinn dýrkeyptur

Við útreikning á greiðslugetu er eins og áður segir horft til margra þátta. Eins og sjá má af neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins er samgöngukostnaður stærsti útgjaldaliður fólks þegar húsnæðiskostnaður er undanskilinn.

Lánastofnanir gera ráð fyrir mismiklum kostnaði við samgöngur ef bíll er skráður á lánsumsækjanda samkvæmt skattframtali. Þannig gera bæði Arion banki og Landsbankinn ráð fyrir að bíll kosti mann um 60.000 krónur á mánuði, en það er sú tala sem miðað er við í 8. grein reglugerðarinnar. 

Landsbankinn benti á vegna fyrirspurna mbl.is um málið að verklag við greiðslumat hefði áður verið með þeim hætti að gera ráð fyrir bílaeign fólks, óháð því hvort það raunverulega ætti bíl, en horfa frekar framhjá þeim tölum við endanlega ákvörðun um lánveitingu. Jafnvel þótt einstaklingur standist ekki greiðslumat geta sérstakar aðstæður samt sem áður heimilað lánveitingu.

Þegar horft er til þess kostnaðar sem fjármálastofnanir reikna með að bíllausir beri vegna samgangna þá sést að hann er mismunandi. Landsbankinn gerir til að mynda ráð fyrir að bíllaus maður þurfi að verja 30.000 krónum í samgöngur á mánuði, á meðan Arion banki reiknar með 15.000 krónum. Í rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna á árunum 2009 til 2011 kemur fram að um 13% heimila séu bíllaus.

127.000 eða 70.000

Í reiknivél á vef Arion banka má reikna út nokkurs konar bráðabirgðagreiðslumat. Reiknivélin gerir ráð fyrir að einstaklingur hafi 300.000 krónur í útborguð laun, sem er nokkuð nærri því sem launamaður hefur eftir skatta og gjöld miðað við meðallaun, sem eru í kringum 402.000 krónur.

Miðað við þær forsendur sem Arion banki reiknar sér hefur bíllaus einstaklingur með 300.000 krónur í útborguð laun 127.861 krónu aflögu til að greiða af húsnæðisláni. Sé einstaklingur í nákvæmlega sömu stöðu, nema á bíl, hefur hann hins vegar 70.861 krónu til að greiða af lánum. Bíllaus einstaklingur hefur því um 80% meiri greiðslugetu en sá sem á og rekur bíl.

Bíllinn nauðsyn?

Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum, hefur skoðað svokallaða flýtibíla. Í viðtali við mbl.is í september sagði hann meðal annars: Kostnaður við að reka venjulegan smábíl er að sögn Finns um 1,2 til 1,4 milljónir á ári. Fyrir þá upphæð getur fólk keypt sér árskort í strætó, tekið leigubíl 80 sinnum, leigt flýtibíl í 60 daga í miðri viku og 10 helgar yfir árið, en samt er það allt saman enn ódýrara en að eiga smábíl.

Með þessu fær fólk möguleika á að velja samgöngumáta í hvert sinn sem það ferðast, en Finnur segir að með því kaupa bíl sé fólk búið að velja að nota ekki hjól eða strætó þar sem fjárfestingin sé svo mikil. „Við erum að segja að þú eigir að geta valið hvað þú viljir gera í hvert skipti sem þú ferðast,“ segir Finnur.

Finnur tekur fram að hann geri ekki ráð fyrir því að flýtibílar muni leysa einkabílinn af hólmi alfarið. Auðvitað séu einhverjir sem sjái tækifæri í að taka upp einkabílslausan lífsstíl með þessu, en almennt gagnist þetta best þeim sem vilja fækka úr tveimur bílum í einn en hafa hingað til átt erfitt með það þar sem fólk vilji geta skroppið á vinnutíma. „Með þessu gefum við fólki raunveruleika í samgöngumálum án þess að farið sé í stríð við einkabílinn,“ segir Finnur.

13% heimila voru bíllaus samkvæmt könnun Hagstofunnar á árunum 2009 …
13% heimila voru bíllaus samkvæmt könnun Hagstofunnar á árunum 2009 til 2011. mbl.is/Styrmir Kári
Lánastofnanir reikna með töluvert lægri fjárhæðum í samgöngukostnað fyrir þá …
Lánastofnanir reikna með töluvert lægri fjárhæðum í samgöngukostnað fyrir þá sem ekki eiga bíl, sem skilar sér í aukinni greiðslugetu. mbl.is/Ómar Óskarsson
Finnur Sveinsson segir marga kosti koma til greina fyrir sömu …
Finnur Sveinsson segir marga kosti koma til greina fyrir sömu fjárhæðir og það kostar að eiga og reka einkabíl.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert