Bjarni segir að ekki muni reyna á ábyrgð ríkisins

Icesave
Icesave

„Það er mikilvægt að hafa í huga að það hefur áður verið leyst úr því álitamáli hvort ríkissjóður beri ábyrgð að þessu leyti, og svo er ekki,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um kröfu Hollenska seðlabankans DNB og breska innistæðusjóðsins FSCS á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta á Íslandi, TIF. „Þannig að það mun ekki reyna á ábyrgð ríkisins að neinu leyti í þessu máli.“

DNB og FSCS greiddu innstæðueigendum í Hollandi og Bretlandi bætur við fall Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.). Um var að ræða innstæður vegna Icesave-reikninga LBI hf. í Hollandi og Bretlandi.

DNB og FSCS krefjast þess að TIF verði gert að greiða eða staðfest verði að TIF hafi borið að greiða að fullu lágmarkstryggingu eða allt að 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda, auk vaxta og kostnaðar. Höfuðstóllinn fyrir utan vexti og kostnað nemur tæplega 556 milljörðum íslenskra króna. Krafa FSCS hljóðar upp á 452,1 milljarð króna og krafa hollenska seðlabankans er upp á 103,6 milljarða króna. Bæði DNB og FSCS greiddu innstæðueigendum út fjármuni í sínum löndum að eigin frumkvæði og án beiðni eða samþykkis TIF.

Ekki slæmt að fá niðurstöðu dómstóla

„Undirliggjandi ágreiningur í þessu máli hefur fyrst og fremst snúist um vaxtakröfu og vaxtaútreikning. Innistæðutryggingasjóðurinn mun einfaldlega halda uppi vörnum í málinu og það er út af fyrir sig ekki slæmt að fá niðurstöðu dómstóla, ef málið endar þannig,“ segir Bjarni.

Hann segir að meðal þeirra krafna sem nú sé haldið á lofti sé að rjúfa aðskilnað á milli svokallaðra tryggingadeilda í sjóðnum og það kynni að hafa áhrif á fyrirkomulag innistæðutrygginga í framtíðinni, ef sú krafa næði fram að ganga. „En ég verð að segja að það þykir mér fremur ólíklegt,“ segir Bjarni.

Með þessum aðskilnaði er átt við að þeir bankar sem voru stofnaðir eftir hrun greiða iðgjöld inn í nýjan tryggingasjóð, sem er aðskilinn frá þeim sem bankar greiddu í fyrir hrun. „Því sem hafði safnast fyrir hrunið hefur verið haldið aðskildu og það fé hefur verið ávaxtað til að standa undir þeim kröfum sem heyra til fortíðarinnar. Krafan um að rjúfa aðskilnað þarna á milli er krafa um að framtíðargreiðslur inn í nýja deild myndu jafnframt standa til fullnustu þeim kröfum sem lýst er í dómsmálinu.“

Bjarni segir þessa kröfu Breta og Hollendinga svo sem ekkert hafa komið á óvart. „Það hafa auðvitað verið viðræður við stjórn sjóðsins í þónokkurn tíma og það fékkst ekki botn í þær viðræður með öðrum hætti en þessum.“

Frétt mbl.is: Krefjast 556 milljarða frá Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert