Þrír létust í slysi í Noregi

Þrír eru látnir og þrír voru fluttir alvarlega slasaðir á sjúkrahús eftir árekstur langferðabifreiðar og flutningabíls í Sokna í Noregi. Íslendingur ók flutningabílnum og er hann talinn bera ábyrgð á slysinu samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins.

Samkvæmt frétt NRK er ekki vitað um líðan fólksins en tvennt var flutt með þyrlu á Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló.

Alls voru níu í rútunni og tveir flutningabílstjórar þegar slysið varð skömmu fyrir miðnætti að staðartíma. Þrír til viðbótar fengu áfallahjálp eftir slysið en að öðru leyti sluppu þeir ómeiddir.

Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér á fimmta tímanum í nótt kemur fram að tveir karlar og ein kona hafi látist í slysinu. Einungis kemur fram að þau þrjú sem voru flutt á sjúkrahús séu alvarlega slösuð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur verið tekið blóðsýni úr ökumanni flutningabílsins, Íslendingi um sextugt. Fréttum norskra fjölmiðla ber ekki alveg saman um hvað gerðist, en ökumaðurinn hefur verið yfirheyrður í nótt. Svo virðist sem hann sé sakaður um ógætilegan akstur en ekki er talið að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

VG hefur eftir öðrum flutningabílstjóra sem kom að slysstaðnum fimm mínútum eftir slysið að hann hafi ekkert getað gert annað en að hringja í lögreglu, en beita þurfti klippum til að losa tvö þeirra sem slösuðust úr rútunni.

Bílstjórinn, sem einnig er íslenskur, segir í samtali við NRK að hann hafi reynt að hemla en án árangurs og rekist utan í flutningabílinn sem hafði ekið á rútuna. Vegna hálkunnar hafi ekkert þýtt að hemla og bíll hans runnið áfram. Ökumenn beggja flutningabílanna sluppu ómeiddir frá slysinu.

Slysið er rakið til ísingar á veginum og að ökumaður flutningabílsins hafi ekið ógætilega miðað við aðstæður.

Leiðrétt:

Ekki er rétt að tveir hafi verið í flutningabílnum heldur var bílstjórinn einn á ferð.

Frétt NRK

Frétt Aftenposten

Frétt VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert