Vilja halda áfram að landa á Skaganum

Unnið við löndun úr Sturlaugi H. Böðvarssyni AK í Akraneshöfn …
Unnið við löndun úr Sturlaugi H. Böðvarssyni AK í Akraneshöfn í dag.

Í dag hefur verið unnið að löndun á afla úr ísfisktogaranum Sturlaugi H. Böðvarssyni AK á Akranesi en togarinn kom til hafnar í gærkvöldi. Um töluverð tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta skipti í tæplega sex ár sem bolfiski frá togurum HB Granda er landað á Akranesi.

Í frétt á vefsíðu HB Granda er haft eftir Lofti Bjarna Gíslasyni, útgerðarstjóra ísfisktogara HB Granda, að bolfiski hafi ekki verið landað úr skipum félagsins frá því 31. maí árið 2008.

Þá líkt og nú kom Sturlaugur H. Böðvarsson með aflann.

„Aflinn er tæplega 90 tonn af þorski. Öll okkar þorskvinnsla fer fram í fiskiðjuverinu á Akranesi og þar hafa verið unnin 100 til 200 tonn á viku. Magnið er misjafnt eftir árstímum og á undanförnum árum hefur öllum þorskafla verið ekið frá Reykjavík til Akraness. Við teljum að hagræði geti skapast við að landa aflanum á Akranesi og við gerum okkur vonir um að framhald geti orðið á löndunum ísfisktogara okkar þar,“ segir Loftur.

Um 100 manns starfa hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert