Frjálst að hafa skoðun á dómsmálum

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er orðið nokkurt þrástef í pólitískri umræðu undanfarinna missira að einstakir fulltrúar Framsóknarflokksins telji sig þess umkomna að leggja á það dóma hvað megi ræða og hvað ekki. Af hverju má ekki ræða tilefnislausar handtökur á fólki sem var að mótmæla á friðsamlegan hátt?“

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í gær í umræðum um störf þingsins. Þar svaraði hún Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, sem gagnrýndi á Alþingi á þriðjudaginn ályktun flokksráðsfundar VG á dögunum þar sem kallað var eftir því að ákærur á hendur fólki sem mótmælt hefði framkvæmdum við nýjan Álftanesveg yrðu dregnar til baka. Sakaði Karl VG um að vilja með þessu hafa pólitísk áhrif á ákæruvaldið og dómsvaldið í landinu. Því hafnaði Svandís.

„Það er væntanlega réttur einstaklinga og samtaka þeirra að hafa skoðun á dóms- og ákæruvaldinu rétt eins og öðru valdi í samfélaginu. Þingmanninum til upprifjunar eru samtök á heimsvísu sem fjalla fyrst og fremst um mannréttindi og athafnir dómsvaldsins á hverjum stað. Þau heita Amnesty International. Ef kosið er að kalla það íhlutun þegar slíkar andmælaraddir rata í samfélagsumræðuna má velta því fyrir sér hvað væri rétt að kalla afstöðu og framlag téðs þingmanns til umræðunnar,“ sagði hún.

Sakaði Svandís Karl um að vilja þagga niður alla umræðu um tjáningarfrelsi, réttinn til að mótmæla og mannréttindi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert