Með hreina samvisku í málinu

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er með algerlega hreina samvisku í þessu máli, hef ekki brotið af mér,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Merði Árnasyni, varaþingmanni Samfylkingarinnar, um meintan leka á trúnaðargögnum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu sem ríkissaksóknari og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa til rannsóknar þar sem hann skoraði á hana að íhuga stöðu sína vegna málsins. Sagði hann rannsóknina beinast ekki síst að ráðherranum sjálfum og nánustu samstarfsmönnum hans.

„Það er alveg sama hvað hann skammar mig [...] og hvernig ráðherrann reynir að dreifa í kringum sig skömmum, ávirðingum, ásökunum, ég segi nú ekki rógi en það liggur við vegna þess að menn hafa einmitt hér í þinginu passað sig að fara ekki yfir þau mörk sem siðleg geta talist, þá kemst hann ekki undan því að málið stendur á honum,“ sagði Mörður. Ýmis fordæmi væru um að ráðherrar og þingmenn vikju eða segðu af sér vegna slíkra mála. Nefndi hann Illuga Gunnarsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Björgvin G. Sigurðsson í þeim efnum. Þau hefðu orðið menn að meiru fyrir vikið.

Hanna Birna sagði með hreinum ólíkindum að því væri haldið fram að einhver sætti sakamálarannsókn vegna málsins. Rannsókn ríkissaksóknara og lögreglu beindist ekki að henni sjálfri heldur öllum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins. „Málið er bara að Mörður Árnason, háttvirtur þingmaður, vill ekkert hlusta á staðreyndirnar í málinu. Hann kýs að gera málið pólitískt, er búinn að gera það allan tímann og ég held að hann hafi meira að segja núna í setu sinni hér sem varaþingmaður varla komið upp út af neinu einasta máli öðru heldur en þessu.“

Ráðherrann skoraði ennfremur á Mörð að upplýsa hvaðan hann hafi fengið minnisblað með umræddum trúnaðarupplýsingum sem hann hefði sagt að hann hefði undir höndum.

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar. Skjáskot af Althingi.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert