Tilbúinn að sýna „réttum aðilum“ minnisblaðið

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Ég er algerlega reiðubúinn að segja réttum aðilum frá því minnisblaði, sýna þeim það og afhenda það. Ég tel að þetta minnisblað sé það minnisblað sem um er að ræða og er ekkert feiminn við það að láta það í hendur réttra aðila. Þetta er hins vegar viðkvæmt mál vegna þess að það eru persónuupplýsingar, ákveðnar dylgjur, ákveðnar ósannaðar tengingar við sakamál sem í þessu minnisblaði er að finna.“

Þetta sagði Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í umræðum um meintan leka á trúnaðargögnum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu sem er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar svaraði hann Unni Brá Konráðsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem skoraði á hann ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra að upplýsa hvaðan hann fékk minnisblað með umræddum persónuupplýsingum sem hann hefði sagt að hann hefði undir höndum.

„Hvar fékk þingmaðurinn þetta minnisblað? Ætlar hann að upplýsa okkur um það? Ætlar hann að snúa sér til lögreglunnar til þess að greina frá því hvernig þessar upplýsingar komust á hans borð?“ spurði Unnur og beindi ennfremur þeirri fyrirspurn til forseta Alþingis hvort ekki mætti aðstoða Mörð við að koma þessum upplýsingum á framfæri við þingmenn. Mörður svaraði og sakaði Hönnu Birnu og Unni um að reyna að beina sjónum fólks að öðru en sjálfu lekamálinu. Sagði hann vissulega rétt að hann hefði fengið minnisblaðið sent og sagðist sem fyrr segir reiðubúinn að afhenda það réttum aðilum. Hann tók hins vegar ekki fram hverja hann ætti við.

Unnur tók aftur til máls og ítrekaði hvatningu sína til Marðar að upplýsa þingið um minnisblaðið og hvaðan hann fékk það. Spurði hún hvort hann ætlaði með minnisblaðið til lögreglunnar. Merði gafst hins vegar ekki kostur á því að svara því hvort hann væri reiðubúinn að fara með minnisblaðið til lögreglunnar þar sem hann gat ekki tekið aftur til máls undir liðnum umræður um fundarstjórn forseta.

Unnur Brá Konráðsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert