„Lítur á þetta sem verkefni“

Ævar Sveinn Sveinsson
Ævar Sveinn Sveinsson

„Við ætlum að halda keppnina til þess að styrkja hann og efla móral. Ef einhver ávinningur verður svo af mun hann allur renna til Ævars,“ segir Hrafnkell Sigtryggsson en Vélhjólaíþróttaklúbburinn stendur fyrir ísaksturskeppni á morgun sem tileinkuð er Ævari Sveini Sveinssyni sem nýverið slasaðist alvarlega í vinnuslysi í Kópavogi.

Keppnin fer fram á morgun milli klukkan 10 og 14 og verður hún haldin á Rauðavatni.

Aðspurður segist Hrafnkell eiga von á um 20 til 30 keppendum en staðsetning mótsins er að sögn jafn skemmtileg og hún er óvenjuleg. „Það sem er óvenjulegt við hana er að keppnin er haldin á Rauðavatni í nágrenni borgarinnar,“ segir Hrafnkell en svo skemmtilega vill til að Ævar Sveinn býr skammt frá vatninu. Má því nánast segja að ísaksturskeppnin fari fram í bakgarði hans.  

Ævar Sveinn er 24 ára gamall húsasmiður og mótorkrossiðkandi til margra ára. Var hann við störf í Vatnsendahverfi í Kópavogi þegar hann féll niður fimm byggingahæðir og hafnaði á steingólfi. Við fallið brotnaði hryggur hans á þremur stöðum, brot kom í mjaðmagrind á tveimur stöðum auk þess sem báðir ökklar hans sködduðust illa. Mænan slapp hins vegar ósködduð sem og höfuðið. 

Kristján Örvar Sveinsson er bróðir Ævars Sveins. Segir hann bróður sinn hafa undirgengist aðgerð á öðrum ökkla í dag og bíði nú aðgerðar á hinum.

„Annars er hann eftir atvikum nokkuð brattur. Hann er náttúrulega rúmfastur og finnur víða fyrir verkjum í líkamanum en Ævar er hins vegar þannig gerður að hann er með frekar jákvætt hugarfar og lítur á þetta sem verkefni.“

Kristján Örvar segir bróður sinn muna vel eftir slysinu. „Hann missti aldrei meðvitund eða neitt svoleiðis og man því vel eftir fallinu,“ segir hann og heldur áfram: „Hann fékk í raun aldrei neitt höfuðhögg, það slapp alveg, en sem betur fer lenti hann á fótunum.“

Nálgast má frekari upplýsingar um keppnina hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert