Fullkomlega óábyrgt að halda áfram

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Farið var í umsóknarferlið að Evrópusambandið sumarið 2009 á fölskum forsendum sem ekki voru til þess fallnar að skapa sátt í samfélaginu á tíma þegar það var í sárum. Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í umræðum á Alþingi í dag um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar og þróun sambandsins. Ráðherrann minnti ennfremur á að núverandi stjórnarflokkar væru báðir andvígir inngöngu í Evrópusambandið og það yrði að virða.

Gunnar Bragi sagði fullkomlega óábyrgt að halda viðræðunum við Evrópusambandið áfram. Gert væri ráð fyrir því að umsóknarríki stefnu á aðild að sambandinu og viðræðurnar færu fram á forsendum þess. Um væri að ræða aðlögunarferli sem gengi út á það að aðlögun færi fram samhliða viðræðunum. Vísaði hann í skýrsluna í því sambandi. Benti ráðherrann ennfremur á að umsóknarferlið opnaði á það að einstök ríki innan Evrópusambandsins gætu notað það til þess að ná fram eigin markmiðum í málum sem gætu verið algerlega óskyld ferlinu. Makríldeilan og framganga Breta og Hollendinga í henni væri gott dæmi um slíkt.

Gunnar Bragi sagði að nauðsynleg pólitísk og samfélagsleg samstaða hefði ekki verið fyrir hendi varðandi umsóknarferlið og væri ekki í dag. Rifjaði hann að upp í því sambandi að ekki hafi verið vilji hjá fyrri stjórnarmeirihluta til þess að leggja umsóknina í dóm þjóðarinnar þegar hún hafi verið send á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert