Berlínarmúrnum gefið framhaldslíf

Jóhann Sigmarsson í París.
Jóhann Sigmarsson í París. Ljósmynd/Aasa Charlotta

Nokkrir íslenskir og erlendir listamenn hafa sameinast í æði mögnuðu verkefni sem felst í að endurnýta sögulegar menjar og gera úr þeim listaverk. Úr fornminjunum búa listamennirnir til listaverk sem síðar verða boðin upp. Efniviðurinn nær allt frá síðustu brotunum úr Berlínarmúrnum og hinni fornu Hamborgarhöfn til leifanna af Tvíburaturnunum og ef verða vill hluta frá Hiroshima.

Kvikmyndagerðamaðurinn og listamaðurinn Jóhann Sigmarsson eða Jonni Sigmars leiðir verkefnið sem gengur alla jafna undir nafninu Miðbaugsminjaverkefnið (e. The Equator Memorial Project). Utan um verkefnið hefur verið stofnað fyrirtækið 40.074 km ehf. og heldur lögfræðingurinn Gísli Gíslason utan um það. Listamannateymið í Miðbaugsminjaverkefninu er skipað góðu fólki sem hefur það að markmiði að gera listaverk úr hlutum sem tengjast sögunni og hafa jafnvel mótað menningu þjóða í gegnum tíðina.

„Þetta er alþjóðlegt farandverkefni listamanna sem snýst um að vinna úr minjum, einhverju sem er kannski orðið að rústum víðsvegar um heiminn. Þetta er endurvinnsla og vinnsla með söguleg menningarverðmæti,“ segir Jóhann sem hefur getið sér gott orð fyrir kvikmyndir sínar og listsköpun.

Ævafornt timbur notað

Athygli vakti þegar Jóhann tók að smíða húsgögn úr meira en hundrað ára gömlum viðardrumbum haustið 2012. Það atvikaðist þannig að hann sá í fréttum að Faxaflóahafnir sf. voru að fjarlægja ónýta bryggjudrumba vegna breytinga á Reykjavíkurhöfn. Þetta vakti upp þá spurningu í huga Jóhanns hvort timbrið væri í raun og veru ónýtt þó að það væri gamalt. „Það datt engum í hug í rauninni að fara að endurvinna úr þessum við. Það átti bara að fleygja þessu,“ segir hann. „Þetta var að gerjast í hausnum á mér allt sumarið 2012 og þá var ég að smíða einhverja prótótýpu af stól sem mig vantaði heim til mín og eitthvert rúm af því að kærastan mín átti ekki almennilegt rúm svo ég klambraði saman rúmi sem kom furðulega vel út,“ segir Jóhann.

Hann fékk leyfi til að nýta viðinn, þurrkaði hann og heflaði og bjó til húsgögn (skrifborð, hægindastól og rúm) sem hafa nú ferðast víða um heiminn á milli gallería, meðal annars til Saatchi Gallery í London sem er eitt virtasta einkagallerí í heimi. Alls sóttu um 2.500 listamenn um að fá verk eftir sig sýnt þar og úr sama fjölda listaverka var verk Jóhanns valið. Hægindastóllinn eftir Jóhann Sigmarsson er eftirsóttur bæði á sýningar og hönnunarhátíðir og næsti áfangastaður stólsins er Mílanó en þangað fer hann í apríl auk borðsins. Jóhann er völundur mikill og smíðar alla þessa hluti með vinstri hendinni því þá hægri getur hann ekki notað vegna lömunar. Hann smíðar því ótrúlegustu hluti „með annarri hendinni“ í orðsins fyllstu merkingu.

Það var í raun út frá þessum smíðum sem Miðbaugsminjaverkefnið varð til. Alla vega varð forna timbrið úr Reykjavíkurhöfn kveikjan að enn dýpri vangaveltum. Hugmyndin um að gera sambærilega hluti utan landsteinanna var heillandi og hefur gengið vel að fá fleiri hluti til endurnýtingar.

Tvíburaturnar og Berlínarmúrinn

Ekki þarf að fjölyrða um hversu víðtæk áhrif það hafði á heimsbyggðina þegar árásirnar voru gerðar á Tvíburaturnana í New York í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þar höfum við dæmi um atburð sem greyptur er í sögu þjóðar og hópurinn hefur nú þegar falast eftir minjum úr Tvíburaturnunum. „Við erum að reyna að fá minjar úr turnunum til að smíða úr,“ segir Jóhann en Bandaríska sendiráðið er þeim innan handar í þeim málum.

Jóhann bjó í áratug í Berlín og hefur komið sér upp góðu tengslaneti þar. Svo góðu að hann er búinn að fá allra síðustu bútana úr Berlínarmúrnum til að vinna með í Miðbaugsminjaverkefninu. Til stendur að vinna úr honum listmuni en í ár eru einmitt 25 ár síðan hann féll.

„Berlínarmúrinn er löngu búinn og það hefur aldrei verið gert neitt svona úr honum. Ég mun gera listaverk og húsgögn úr honum. Ég hef teiknað upp borð sem ég ætla að gera,“ segir Jóhann sem verður eflaust vel undirbúinn í apríl þegar hópurinn fær afnot af 3.000 fermetra húsnæði í Berlín. Þar mun vinnan við restina af Berlínarmúrnum fara fram og úr verða einstök verk, úr sögunni sjálfri og handbragði Jóhanns og félaga.

„Múrinn er tákn kalda stríðsins og þetta var upphafið að því að Sovétríkin gömlu féllu. Þetta eru rosalegar minjar og það er mikill heiður að fá að vinna með þær,“ segir Jóhann.

Hópvinna listamanna

Aðspurður hvort hann hafi hugmynd um hvers lags verk yrði unnið úr brotum úr Tvíburaturnunum, ef þau fást, segist hann enga hugmynd hafa en hugmyndir fæðast eins og annað. „Við þurfum að ræða það innan hópsins og hver og einn er skapandi innan hópsins. Það þarf náttúrlega að reka á eftir listamönnum því yfirleitt eru þeir fastir í eigin hugsanagangi,“ útskýrir Jóhann en vill þó ekki meina að listamenn séu slakir í hópvinnu.

„Ef maður hefur þetta opið er þetta ekki svo mikil kúnst. Þetta er mjög svipað og við höfum verið að gera áður. Þetta er eins og að gera kvikmynd þar sem þú ert með fámennt tökulið og menn þurfa að vinna að einhverju en hver listamaður fær að hugsa sjálfstætt,“ segir Jóhann sem nýtur þess að vinna með hópnum.

Höfnin í Hamborg

Það eru fleiri fornar hafnir en Reykjavíkurhöfn sem hafa fangað athygli Jóhanns. Hamborgarhöfn er ein þeirra. Listahópurinn fékk drumba úr höfninni, sem verður einmitt 825 ára á þessu ári. Unnin verða húsgögn og listaverk úr minjunum í samvinnu við þýska listamenn í sumar. Listaverkunum úr minjunum verður fylgt eftir með sýningum og uppboðum í virtum galleríum og söfnum víðsvegar um heiminn. Að hverri sýningu lokinni verða verkin boðin upp. Gísli Gíslason mun þá gegna hlutverki uppboðshaldara, enda segir Jóhann að það sé á móti öllum lögmálum að listamenn reyni það sjálfir.

„Það geta næstum allir farið illa með listamenn en fólk fer að hugsa sig um áður en það fer illa með lögfræðing,“ segir Jóhann og hlær. Meðlimir hópsins kunni vel að meta aðkomu Gísla að verkefninu.

Sjálfur segir Gísli að hann hafi tekið þetta að sér því hann heillaðist af viljastyrk Jóhanns og þeirri trú sem hann hefur á verkefninu. Hugsjónin smitaði út frá sér.

„Við búum til verkin en Gísli lætur verkin tala,“ segir Jóhann í gríni.

Andi liðinna tíma

Hvernig skyldi tilfinningin vera að meðhöndla og endurnýta söguna sjálfa? „Til dæmis með húsgögnin úr timbrinu úr Reykjavíkurhöfn þá finnur maður það að þegar maður kemur inn í herbergi þar sem þau eru er eins og andarnir lyfti manni upp. Þá er til dæmis saga Reykjavíkur og allra sjómanna síðustu hundrað árin í þessu timbri og maður finnur andann,“ segir Jóhann Sigmarsson. Húsgögnin eiga eflaust eftir að endast vel og lengi, enda viðurinn gegnheill og hefur staðið af sér storma og ágang sjávar.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu verkefnisins og því hvaða myndir sagan tekur á sig í höndum listamannanna í sumar.

www.40074km.is.
Það er mikill heiður að fá að endurnýta síðustu brotin …
Það er mikill heiður að fá að endurnýta síðustu brotin úr Berlínarmúrnum. Jóhann og listamennirnir í Miðbaugsminjahópnum fá 3.000 fermetra húsnæði í Berlín þar sem sumrinu verður varið við listsköpun. Ljósmynd/Aasa Charlotta
Einstakt er að fá að vinna með við úr höfninni …
Einstakt er að fá að vinna með við úr höfninni sem verður einmitt 825 ára á þessu ári. Ljósmynd/Aasa Charlotta
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert