Innanlandsflugið orðinn munaður

Töluverður munur er á notkun karla og kvenna á innanlandsflugi.
Töluverður munur er á notkun karla og kvenna á innanlandsflugi. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ástæða þess að fækkun er á flugfarþegum í innanlandsflugi er að kaupmáttur er minni eftir efnahagshrunið 2008 og meðalkostnaður á miðum hefur hækkað. Þarna er um vítahring að ræða sem leiðir til þess að fólki finnst innanlandsflug orðinn munaður sem færri leyfa sér en áður. Þetta sagði Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur hjá Mannviti, á fundi í morgun um framtíð innanlandsflugs.

Vilhjálmur vann ásamt Ástu Þorleifsdóttur, sérfræðingi hjá innanríkisráðuneytinu, skýrslu um félagshagfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugs. Hann greindi frá helstu niðurstöðum skýrslunnar í morgun. Meðal þess sem kom fram hjá honum er að forsendan fyrir því að bæta rekstrargrundvöll innanlandsflugs sé samstillt átak ferðaþjónustuaðila. Það geti skilað sé í lægri flugfargjöldum.

Einnig þurfi upplifun erlendra ferðamanna af innanlandsflugi að verða jákvæðari, en þeir nýta sér flugferðir í litlum mæli og velja langar rútuferðir fremur. Þar sé vannýttur möguleiki og aukin notkun ferðamanna myndi leiða til hagræðingar í kerfinu og jafnvel til þess að miðaverð færi lækkandi.

Ásta nefndi einnig að fólk virðist illa meðvitað um þá afslætti sem eru í boði í innanlandsflugi. Þá mætti kynna betur. Hún sagði kostnaðarmeðvitund fólks ekki alveg tæra og nefndi að margir af þeim sem rætt var við á Austurlandi hefðu í erindum á vegum fyrirtækja sinna keyrt frekar til Reykjavíkur frekar en að fljúga.

Flugþjóðin Ísland

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hélt einnig ræðu á fundinum og nefndi að á ferðalagi sínu um landið hafi hún heyrt frá fólki að það teldi kostnað við innanlandsflug of mikinn. Það þurfi að skoða betur, greina og athuga hvort innanríkisráðuneytið geti tryggt að innanlandsflug sé sá raunhæfi kostur sem það eigi að vera.

Hún sagði deila um Reykjavíkurflugvöll liti umræðuna um innanlandsflugið um of. Í stað þess að ræða um mikilvægi innanlandsflugs stilli fólk sé í andstæðar fylkingar, með eða á móti Vatnsmýrinni. Frekar ættu menn að standa með flugi á Íslandi, enda sé Ísland mikil flugþjóð.

Skipa á vinnuhóp um verkefnið og munu fulltrúar sveitarfélaga, ferðaþjónustu og Isavia auk fulltrúa ráðuneytisins eiga þar sæti.

Munur á notkun karla og kvenna

Í skýrslunni segir meðal annars að töluverður munur sé á notkun karla og kvenna á innanlandsflugi. Fleiri konur fljúga og greiða oftast sjálfar fyrir flugið en karlar nota flug mun oftar og þeir greiða síður flugið sjálfir. Af þeim sem ferðast á vegum fyrirtækja eru 82% karlar. Þá nota aðfluttir flug mun meira en innfæddir og töluverður meirihluti aðfluttra á landsbyggðinni eru konur.

Samgönguráð mun á næstunni fara yfir skýrsluna og verður tillögum skilað til ráðherra að þeirri yfirferð lokinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert