Óraunsætt að undanþágur fáist

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Óraunsætt er að Ísland geti fengið varanlegar undanþágur frá reglum ESB á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar í aðildarviðræðum við sambandið. Þetta segir Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem sendi nýlega frá sér skýrslu um stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB.

Gunnar var spurður að því hvort að raunsætt væri að hans mati að Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur eða einhvers konar varanlegar sérlausnir frá reglum ESB á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar?

„Nei. Þrátt fyrir að tæknilega sé hægt að fá fram varanlegar sérlausnir í aðildarsamningi verður það að teljast mjög ólíklegt að slíkar undanþágur fáist, sérstaklega hvað varðar landbúnað og sjávarútvegsmál. Í því aðildarferli sem Ísland gengur í gegnum er áhersla lögð á aðlögun að reglum sambandsins en ekki á að veita undanþágur,“ segir Gunnar.

Spurður um umræðuna um mögulegar undanþágur og sérlausnir segir hann að þær undanþágur sem stundum sé vísað til í umræðu um þessi mál séu annað hvort ekki varanlegar, eða til komnar við allt aðrar aðstæður en nú ríki. „Eins og fram kemur í skýrslunni hafa engar undanþágur fengist í landbúnaði og sjávarútvegi í fortíðinni og með breyttum áherslum hjá Evrópusambandinu sjálfu verður það að teljast enn ólíklegra en áður að undanþágur fengjust á þeim sviðum.

Ef litið er á þær áherslur sem birtast í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar sem vegvísis um þær sérlausnir sem Ísland hefði farið frammá í sjávarútvegsmálum, ef sá kafli hefði verið opnaður, og þær bornar saman við áherslur Evrópusambandsins ætti að vera ljóst að himin og haf ber á milli,“ segir Gunnar Haraldsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert