Ekki sótt um án þjóðaratkvæðagreiðslu

Þingsályktunartillögunni var dreift á Alþingi í kvöld.
Þingsályktunartillögunni var dreift á Alþingi í kvöld. Skjáskot af Althingi.is

Samkvæmt þingsályktunartillögu sem dreift var á Alþingi í kvöld um að Ísland dragi til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, verður ekki sótt um aðild að bandalaginu að nýju nema að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla.

Þingsályktunartillögunni var dreift á Alþingi í kvöld. „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki,“ segir í tillögunni.

Í greinargerð með tillögunni er fjallað um þá ákvörðun sem Alþingi tók 16. júlí 2009 um að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Þessi ákvörðun hafi verið umdeild alla tíð.

„Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna. Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild.

Flokkarnir sem mynda núverandi ríkisstjórn hafa það báðir á stefnuskrá sinni að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Þetta er staðfest í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar jafnframt því sem tekið er fram að aðildarviðræðum verði ekki framhaldið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert