Nú geta allir lagst á eitt

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við Evrópusambandsandstæðingar höfum verið að berjast fyrir því að rjúfa þetta ferli sem farið var af stað með árið 2009. Nú sér í land með það og málið fær þinglega meðferð. Þegar þessu er lokið verður hægt að einbeita sér að innanlandsmálum, uppbyggingu, atvinnusköpun og innviðum samfélagsins.“

Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, í samtali við mbl.is en í máli sínu vísar hún til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Segir Vigdís þann tíma sem liðið hefur frá umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu einkennast af röngum áherslum sem hindrað hafa uppbyggingu hér á landi. Spurð hvort auðveldara verði nú en áður að byggja upp innviði samfélagsins svarar Vigdís: „Fókusinn er þá á einum stað - að hugsa um hagsmuni landsmanna og byggja upp hér á landi. Þegar búið er að draga þessa umsókn til baka geta allir lagst á eitt við að byggja hér upp það samfélag sem við viljum lifa í.“

Aðildarumræða á villigötum

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í samtali við mbl.is að skynsamlegast hefði verið að leiða aðildarviðræður við Evrópusambandið til lykta og kjósa síðan um aðildarsamning þegar hann liggur fyrir. Vigdís segir hins vegar ekki um neitt að semja varðandi Evrópusambandsaðild.

„Umsóknarferlinu var breytt eftir að Norðmenn höfnuðu samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Var því breytt í þá veru að ríki sem sækja um aðild að Evrópusambandinu þurfa að aðlaga regluverk sitt og umgjörð að reglum Evrópusambandsins. Þegar allt er komið og hinn svokallaði samningur liggur fyrir þá er lagasetning þess ríkis sem sækir um orðin eins og lagasetning Evrópusambandsins og ríkið þar með orðið fullgildur meðlimur.“

Vigdís segir því alla umræðu um hugsanlegar undanþágur og sérlausnir fyrir Ísland vera á villigötum. 

Stuttur tími leið frá því að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið og þróun sambandsins, kom fram og þar til þingsályktunartillaga um slit á viðræðum leit dagsins ljós. Spurð hvort betra hefði verið að kynna sér efni skýrslunnar nánar áður en ákvörðun um slit var tekin kveður Vigdís nei við.

„Ég gagnrýni ekki málsmeðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli því skýrslan er einungis 150 blaðsíður og niðurstöðukaflinn mjög afgerandi og góður,“ segir Vigdís og bætir við að fylgiskjöl skýrslunnar hafi einnig verið unnin vandlega. Í einu þeirra segir hún skýrt koma fram að undanþágur og sérlausnir fyrir Ísland hafi aldrei verið varanlegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert