Gætu ekki vottað Biggest Loser

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Sú meinta „vottun“ sem íslensk útgáfa sjónvarpsþáttanna The Biggest Loser, sem sýnd er á SkjáEinum, er sögð hafa fengið frá læknum, sálfræðingum og næringarfræðingum á ekki við um fagfólk hér á landi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sjö félögum, Félagi fagfólks um átraskanir, Félagi fagfólks um offitu, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Matarheill, Matvæla- og næringarfræðifélagi Íslands, Samtökum um líkamsvirðingu og Sálfræðingafélagi Íslands.

Í yfirlýsingunni segir að enginn íslenskur heilbrigðisstarfsmaður geti viðhaft þá nálgun gagnvart sínum skjólstæðingum sem einkenni þessa þætti án þess að brjóta siðareglur viðkomandi fagstéttar og gildandi lög um heilbrigðisstarfsmenn.

Þá kemur jafnframt fram að þættirnir hafi sætt mikilli gagnrýni, bæði erlendis og hérlendis, fyrir öfgakenndar áherslur á þyngdartap, mikla fæðutakmörkun, æfingaálag og harkalega framkomu þjálfara í garð keppenda.

„Við teljum þessa nálgun ekki samræmast faglegum vinnubrögðum og sú framkoma sem þjálfarar sýna keppendum samræmist hvorki siðareglum né lögum um heilbrigðisstarfsmenn sem kveða skýrt á um að skjólstæðingum skuli sýnd virðing,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert