Gengu út af þingflokksformannafundi

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ernir

Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi gengu út af fundi þingflokksformanna fyrir hádegið. Ekki var fallist á kröfu þeirra um að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga eigi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka yrði tekin af dagskrá þingsins í dag.

Þingfundur hefst klukkan þrjú í dag. Að loknum óundirbúnum fyrirspurnum verður framhald á umræðum um Evrópuskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Að þeim loknum verður fyrsta umræða um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, segir í samtali við mbl.is að tillagan hafi verið sett á dagskrá án nokkurs samráðs við þingflokka minnihlutans. Hann segir að tillögunni hafi verið dreift rétt fyrir klukkan sjö síðasta föstudagskvöld.

„Þarna er verið að ræða um tillögu um að setja eitt af stórum umfjöllunarefnum pólitískrar samtímasögu í salt með meirihlutavaldi. Það er sambærilegt því og ef menn myndu sprengja Reykjavíkurflugvöll í loft upp til að þurfa ekki að ræða það mál neitt meira.

Þess vegna eru þetta mjög óheppileg vinnubrögð. Að málinu skuli vera dreift með þessum hætti, seint á föstudagskvöldi og sett á dagskrá einhliða af forseta þingsins um helgina. Þetta setur allt samstarf hér í þinginu í mikið uppnám og mikinn vanda,“ segir hann.

Vill fyrst klára umræðuna um Evrópuskýrsluna

Róbert vill frekar klára umræðuna um skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ. „Sú umræða er enn í gangi. Það eru tíu á mælendaskrá og það er alveg ljóst að þessi þingsályktunartillaga hefur verið í undirbúningi alla síðustu viku. Hún er það ítarleg, greinilega yfirlesin og þannig unnin að það er alveg útilokað að henni hafi verið kastað fram í hádeginu á föstudaginn á þingflokksfundum stjórnarflokkanna.

Hún hefur verið tilbúin þegar skýrslan var lögð fram,“ segir hann.

„Mér finnst sorglegt að horfa upp á þessi vinnubrögð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert