Met slegið í ómerkilegheitum

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að utanríkisráðherra hefði slegið met í ómerkilegheitum í greinargerð þingsályktunartillögu um að draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Hann sagðist sjá þar fingraför ráðherrans sem mætti hafa mikla skömm fyrir.

Steingrímur sagði að í greinargerðinni mætti finna dylgjur og áburð og hann tryði því ekki upp á einn einasta mann í utanríkisráðuneytinu að hafa sett svona texta á blað. 

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir þetta og sagði engan embættismenn geta sett álíka greinagerð saman. Hún hlyti að vera skrifuð af utanríkisráðherra sjálfum. Þar kæmi meðal annars fram að líkur væru á því að þingmenn sem samþykktu að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu hefðu þar með brotið gegn stjórnarskrá landsins.

Úr þingsal heyrðist þá kallað að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, hefði samið greinargerðina og upphófst mikill hlátur.

„Það væru allir brosandi í dag“

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagðist hafa verið jákvæður og uppbyggilegur frá því hann tók sæti á Alþingi. Hann hefði hvatt til sátta og samvinnu. Nú fyndist honum hann hins vegar vera illilega svikinn af ríkisstjórninni.

Hann bað þingmenn að ímynda sér að utanríkisráðherra hefði lagt fram á föstudag þingsályktunartillögu þess efnis að þjóðin fengi að kjósa samhliða sveitarstjórnarkosningum um framhald viðræðna við Evrópusambandið. „Það væru allir brosandi í dag.“

Hins vegar hefði utanríkisráðherra - og ríkisstjórnin - kallað fólkið aftur út á Austurvöll. „Þetta er ömurlegur dagur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert