Flensborgarskóli verst staddur

Flensborgarskóli.
Flensborgarskóli.

Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2013 voru alls 16 af 28 opinberum framhaldsskólum reknir með 1,4-45 m.kr. halla. Mestur var hallinn hjá Flensborgarskóla í Hafnarfirði og Fjölbrautarskóla Suðurlands. Af þeim tólf skólum sem skiluðu afgangi var hann mestur hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um rekstrarstöðu og reiknilíkan framhaldsskólanna. Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hefur rekstrarstaða framhaldsskóla almennt versnað síðustu ár og eru margir þeirra komnir með uppsafnaðan halla. Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að taka á þessum vanda.

Í skýrslunni segir að halli á rekstri Flensborgarskóla í fyrra hafi numið 45 milljónum króna og hjá Fjölbrautarskóla Suðurlands var hann 44 milljónir króna. Verst er staða Flensborgarskóla sem er með 102 milljóna króna uppsafnaðan halla en næstur kemur Fjölbrautarskólinn í Breiðholti sem er með 47 milljóna króna uppsafnaðan halla.

Samanlögð rekstrarafkoma allra 28 skólanna var neikvæð um 109 milljónir króna í árslok 2013 og samanlagt eigið fé þeirra neikvætt um 99 milljónir króna.

Mikill munur er hins vegar á framhaldsskólunum því tólf skólar skiluðu hagnaði á síðasta ári. Þannig skilaði Fjölbrautarskóli Suðurnesja 22 milljón króna hagnaði og er einnig með sterkustu eiginfjárstöðuna eða 44 milljónir króna. Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra skilaði svo 22 milljón króna hagnaði í fyrra.

Þá segir í skýrslunni að ljóst sé að almennur samdráttur ríkisframlaga undanfarin ár sé ein helsta ástæða þess hversu illa sé komið fyrir framhaldsskólunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert