Nærri helmingur að flýja eiginmann

Enginn ofbeldismannanna virðist hafa verið fjarlægður af lögreglu á grundvelli …
Enginn ofbeldismannanna virðist hafa verið fjarlægður af lögreglu á grundvelli austurrísku leiðarinnar svokölluðu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alls dvöldu 125 konur og 97 börn í Kvennaathvarfinu á síðasta ári. Dvöldu þau allt frá einum degi upp í 183 daga. Það er 22 íbúum fleira en árið á undan. Meðaldvöl varaði í 17 daga hjá konum en 21 dag hjá börnum, sex börn dvöldu í meira en 100 daga í athvarfinu. Að meðaltali voru 11 íbúar í athvarfinu á degi hverjum; sex konur og fimm börn. Að auki komu 226 konur í viðtöl án þess að til dvalar kæmi.

Nærri helmingur eða 46% var að flýja eiginmann eða sambýlismann en 18% ofbeldismannanna eru fyrrverandi eigin- eða sambýlismenn, 6% eru kærastar og 16% fyrrverandi kærastar.

Ofbeldismennirnir voru á aldrinum 18-81 árs, meðalaldur 41 ár. Konurnar sem komu í athvarfið voru 18-74 ára, meðalaldur 37 ár. Börnin voru frá því að vera örfárra daga gömul upp í 16 ára.

90% hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi

Tæp 90% kvennanna nefna andlegt ofbeldi sem eina af ástæðu komu en 51% líkamlegt ofbeldi.

„Athygli vekur að hærra hlutfall, eða 64%, segist hafa hlotið líkamlega áverka einhvern tíma í sambandinu. Þessi mismunur skýrist líklega af því að þeir sem beita ofbeldinu hafa skilgreint ástandið í sambandinu og að hvorki ofbeldismaður né brotaþoli líta á það sem gengur á sem líkamlegt ofbeldi, jafnvel þótt það skilji eftir sig líkamlega áverka. Fjórðungur kvennanna nefnir kynferðislegt ofbeldi sem ástæðu komu, 16% ofsóknir fyrrverandi maka, 14% morðhótun og 18% ofbeldi gegn börnum. 21% var með líkamlega áverka við komu en einungis 9% höfðu kært ofbeldið til lögreglu,“ segir í tilkynningu frá Kvennaathvarfinu.

Afleiðingar ofbeldisins koma fram með ýmsum hætti. Auk líkamlegra áverka og þeirrar staðreyndar að konur þurftu að flýja heimili sín sögðu 88% þeirra frá kvíða vikurnar fyrir komu, 76% frá ótta, 74% þunglyndi, 67% þreytu, 66% svefnleysi og 39% kvennanna höfðu íhugað sjálfsvíg vikurnar fyrir komu.

27% fóru heim í óbreytt ástand

Eftir dvöl í athvarfinu fóru 27% kvennanna heim í óbreyttar aðstæður sem er lægra hlutfall en árið á undan (var 34%) en 18% fóru heim í breyttar aðstæður þar sem ofbeldismaðurinn er til dæmis farinn af heimilinu (átti við um einungis 6% árið á undan).

Enginn ofbeldismannanna virðist hafa verið fjarlægður af lögreglu á grundvelli austurrísku leiðarinnar svokölluðu. Í tímabundna dvöl til ættingja eða vina fóru 15% og ekki er vitað hvað varð um þær þegar þeirri dvöl lauk. 13% fóru í nýtt húsnæði. Aðrar fóru til dæmis í annað athvarf, á sjúkrastofnun eða úr landi. Ekki er vitað hvert 15% kvennanna fóru og reikna má með að hluti þeirra hafi farið heim í óbreyttar aðstæður.

Áberandi er hversu margar fyrrverandi dvalarkonur búa við gríðarlega erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Skilnaðarferlið er oft langt og á meðan hafa konurnar takmarkaðan rétt til fjárhagslegrar aðstoðar auk þess sem hátt leiguverð og erfiðleikar við að finna leiguhúsnæði koma illa niður á konum eftir að dvöl í Kvennaathvarfinu lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert