Samtök eldri sjálfstæðismanna álykta um ESB

Halldór Blöndal f.v. þingmaður og formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna.
Halldór Blöndal f.v. þingmaður og formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ályktun stjórnar Samtaka eldri sjálfstæðismanna um slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið:

„Stjórn Samtaka eldri sjálfstæðismanna vísar til  ályktunar síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um leið og hún lýsir yfir stuðningi við þá ákvörðun að aðildarviðræðum að Evrópusambandinu skuli slitið. Þær hafa nú staðið í fjögur ár án þess að þeir málaflokkar hafi verið ræddir, sem varða okkur Íslendinga mestu, yfirráðin yfir auðlindum landsins, þar á meðal hafsvæðunum umhverfis landið og stjórn fiskveiða. Það staðfestir, sem raunar hefur alltaf legið fyrir, að Evrópusambandið veitir ekki varanlegar undanþágur frá regluverki sínu þegar um svo ríka hagsmuni er að ræða.

Mikill meirihluti þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum, meirihluti Alþingis og ríkisstjórn  eru andvíg aðild að Evrópusambandinu. Aðildarviðræður nú yrðu því sýndarviðræður, sem engri niðurstöðu gætu skilað. Það er því hreinlegast og heiðarlegt gagnvart báðum aðilum að slíta viðræðunum.

Stjórn SES lýsir yfir trausti á forystu Sjálfstæðisflokksins. Íslendinga varðar miklu að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, sérstaklega í Evrópu og Norður-Ameríku. Það gerum við best með því að koma fram af einurð og heiðarleika og með því að skýra fyrir öðrum þjóðum, hverjir séu þeir grundvallarhagsmunir sem við hljótum ávallt að gæta og getum aldrei gefið frá okkur,“ segir í ályktun sem send var á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert