„Vilji þjóðarinnar skýr“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að umræðan um Evrópusambandið snúist nú um að leyfa fólki að kjósa.

Bjarni ræðir nú um Evrópumálin á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll. Hann segir sjálfstæðismenn á Alþingi vilji að þessari óvissuferð fari að ljúka. Þess vegna vilji þeir að viðræðum fari að ljúka. Hvorugur stjórnarflokkanna vill ganga í Evrópusambandið. Á þeim tæpu fimm árum sem liðin eru frá því aðildarviðræður hófust hafi þetta mál klofið þjóðina.

Bjarni sagði, að bent hafi verið á að hægt væri að setja aðildarumsóknina á ís og vissulega væri það viðurhlutaminna en að slíta viðræðunum, kallað á minni upphlaup og færri „statusa“ á Facebook. Bjarni sagðist hins vegar ekki vilja taka þátt í því leikriti, sem sett hefði verið upp á síðasta kjörtímabili þar sem í raun væri verið að draga 28 aðildarríki ESB á asnaeyrunum í umsóknarferli án þess að hugur fylgdi máli.

Ríkisstjórninni beri að fara að vilja þjóðarinnar sem hefði sagt skoðun sína í síðustu þingkosningum. Það sé vilji þjóðarinnar að hætta viðræðum við Evrópusambandið.

Bjarni sagði, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi stöðvað viðræðurnar á sínum tíma undir lok síðasta kjörtímabils. Það væri rétt, að hann hefði fyrir alþingiskosningarnar í fyrra talið hægt að kjósa um aðildarviðræður við Evrópusambandið, jafnvel á fyrri hluta þessa kjörtímabils. En í tillögunni, sem nú hefði verið lögð fram á þinginu, fælist að verði ákveðið að sækja um aðild að nýju verði það borið undir þjóðina, að aðlögunarferli að Evrópusambandinu hefist ekki án samþykkis þjóðarinnar.

„Eru þetta svik?“ spurði Bjarni og svaraði: „Nei kæru vinir, þetta eru engin svik.“

Hann segir það rétt að Ísland hafi orðið fyrir áfalli haustið 2008 en hafi rétt betur út kútnum heldur en flestir aðrir. Hér sé minna atvinnuleysi og meiri hagvöxtur en víðast hvar annars staðar. Bjarni sagði, að fólk spyrji: hvaða plan hafið þið annað en að ganga í ESB. Svarið væri, að ríkisstjórnin hafi aldrei ætlað  að ganga í ESB, það hafi aldrei verið planið heldur að taka fast á ríkisfjármálum, greiða niður skuldir, lækka skatta og efla lífskjör. Grundvallaratriði væri að auka útflutningsverðmæti og sagði Bjarni, að lífskjör Íslendinga í framtíðinni muni ráðast af þjóðarinnar við að styðja við útflutningsgreinar og auka framleiðslu og framleiðni.

Að sögn Bjarna eru jákvæð teikn á lofti hvað varðar afnám gjaldeyrishafta. Hann segist telja að það muni nást farsæl lending í málum tengdum kröfuhöfunum.

Bjarni segir að margir séu Evrópusinnar með fyrirvara. Líta á það sem hlaðborð þar sem hægt sé að velja og hafna. Meðal þeirra sé Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Össur Skarphéðinsson sé orðinn eins og síðasti móhíkaninn þegar kemur að ESB, sá eini sem vill ganga inn í Evrópusambandið eins og það er.

Hann segir að þeir sem hafi mest um inngöngu ríkis að gera segi að það muni ekkert gerast varðandi aðild fyrr en það er ljóst að vilji er fyrir inngöngu hjá viðkomandi ríki.

Að sögn Bjarna munum við tapa forræði okkar í makríldeilunni. Við fengjum bara fyrirskipun um hver hlutdeild okkar væri. Hann vill að næstu fjögur ár verði notuð í að skoða málið ofan í kjölinn.

Hann segir að enginn reyni að halda því fram að við fáum undanþágu varðandi evruna. Hið sama eigi við um sjávarútveginn. Svoleiðis hafi það verið varðandi Möltu. Bjarni segir að Malta hafi fengið undanþágu varðandi fiskveiðar. Heildarafli þeirra jafnist á við afla eins báts á Íslandi.

Hér er hægt að hlusta beint

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert