Jarðskjálftahrina fyrir norðan

Kort sem sýnir upptök skjálftanna. Sveru örvarnar sýna rekstefnuna en …
Kort sem sýnir upptök skjálftanna. Sveru örvarnar sýna rekstefnuna en þær grennri sýna sniðgengishreyfingu um Húsavíkur-Flateyjarmisgengið (HFF). Veðurstofa Íslands

Nokkrir jarðskjálftar hafa mælst á Tjörnesbeltinu í morgun, þar af eru tveir yfir þrjú stig. Annar þeirra, sem mældist 3,2 stig, reið yfir tæplega 12 mínútur yfir átta í morgun en upptök hans voru 11,6 km norðvestur af Gjögurtá.

Skjálfti upp á þrjú stig reið yfir nokkrum mínútum áður og voru upptök hans 14,3 km norðvestur af Gjögurtá.

Samkvæmt upplýsingum frá jarðskjálftasviði Veðurstofu Íslands hafa borist nokkrar tilkynningar um jarðskjálfta frá Ólafsfirði. Ekki hafa mælst fleiri skjálftar á þessum slóðum síðan rúmlega átta í morgun en unnið er að því að fara yfir skjálftana hjá jarðskjálftasviði Veðurstofunnar.

Skjálftarnir nú eru á svipuðum slóðum og mældust fyrr í vikunni. Eins var jarðskjálftahrina á þessum slóðum um mánaðamótin september/október í fyrra.

Á þriðja tug skjálfta mældist á þessum slóðum s.l. mánudag. Þessi staðsetning er rétt vestan við þann stað þar sem skjálftahrina varð s.l. haust.

Kort af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert