Samkomulag um framhald málsins

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkomulag liggur fyrir á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðunnar um framhald umræðu um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, gerði grein fyrir samkomulaginu skömmu eftir klukkan þrjú en þingfundum hafði áður verið ítrekað frestað á meðan forseti Alþingis ræddi við þingflokksformenn.

Samkomulagið gengur út á að umræða um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið verði tæmd, henni síðan frestað og skýrslunni vísað til utanríkismálanefndar Alþingis. Í framhaldi mæli Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fyrir þingsályktunartillögu sinni um að umsóknin verði dregin til baka. Fulltrúar allra flokka fái þá tækifæri til þess að ræða um tillöguna. Umræðu um tillöguna verður síðan frestað.

Þingsályktunartillagan fari í framhaldinu til utanríkismálanefndar. Með henni fari til nefndar þær tvær þingsályktunartillögur sem lagðar hafa verið fram af stjórnarandstöðunni um að málið fari í þjóðaratkvæði án umræðu. Leitað verði síðan hófanna á næstu dögum í nefndaviku hvort hægt sé að greiða fyrir áframhaldandi umræðu um málið.

Þingmenn allra flokka stigu í ræðustól og lýstu ánægju sinni með samkomulagið og þingflokksformenn hrósuðu forseta þingsins fyrir að hafa hoggið á hnútinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert